Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hnúðlax mögulega nýr nytjastofn á Íslandi

07.08.2019 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Hnúðlax verður mögulega orðinn nytjastofn í íslenskum ám þegar fram líða stundir. Sífellt meira veiðist hér af hnúðlaxi og vitað er að hann er tekinn að hrygna hér og líklegt að seiði hafi komist á legg.

Lífsferli hnúðlaxins veldur því að hann er mest áberandi hér á landi annað hvert ár. 70 hnúðlaxar voru skráðir í veiðibækur sumarið 2017 í ám þar sem stunduð er regluleg veiði.

Líklega fleiri hnúðlaxar nú en 2017

Hnúðlaxar veiðast hins vegar í mun fleiri ám. Í sumar hefur hnúðlax meðal annars veiðst í Soginu, Ölfusá, Miklavatni í Fljótum, Fögruhlíðará á Fljótsdalshéraði og Norðurá í Skagafirði. „Miðað við það sem maður er að heyra, bæði á samfélagsmiðlum og eftir öðrum leiðum, þá myndi ég telja að það væri síst færri eða kannski heldur fleiri en við sáum 2017,“ segir Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatnslífríkis Hafrannsóknastofnunar.

Staðfest að hnúðlax hafi hringt hér 

Og hann segir staðfest að hnúðlax hafi hrygnt hér. „2017 fengum við hér sýni af hrygnum sem voru úthrygndar. Og auðvitað þarf tvo til, til þess að koma hrygningunni af stað, og þeir fiskar höfðu sannanlega hrygnt.“ En hvort þessir laxar nái að mynda hér stofna sé ekki vitað. Allar líkur séu þó á að það gæti orðið, verði þróunin sú sama hér og bæði í Rússlandi og Noregi. „Og útbreiðslan virðist vera að sækja frekar suður á bóginn eftir ströndum Noregs. Þannig að við gætum alveg eins att von á því, já.“

Flokkaður sem ágeng tegund í Evrópu

Því gæti þetta orðið nýr nytjastofn hér þegar fram líða stundir. Guðni segir að sú náttúra sem verið hafi á Íslandi sé sú sem fólk eigi að venjast og vilji passa upp á og vernda. „Vissulega er þarna um nýja tegund að ræða og í Evrópu hefur hún verið flokkuð sem ágeng tegund,“ segir hann. Og þarna sé ekkert hægt að gera annað en að fylgjast með framvindunni og hvaða áhrif hnúðlaxinn muni hafa. „En vissulega kemur þetta þá til með að breyta þeirri fánu sem við höfum hér í okkar ám meðal fiskstofna.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV