Hnotskurn: Mál Ríkislögreglustjóra frá A til Ö

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hnotskurn: Mál Ríkislögreglustjóra frá A til Ö

01.10.2019 - 13:21
Málefni Ríkislögreglustjóra eru tekin fyrir í fyrsta þætti Hnotskurnar. Hnotskurn er nýr þáttur frá RÚV núll þar sem fyrirferðamikil fréttamál og minni dægurmál eru útskýrð ofan í kjölinn.

 

Hlustaðu á þáttinn hér

Það féllu býsna stór orð í viðtali ríkislögreglustjóra, Haraldar Johannessen, við Morgunblaðið á dögunum. Haraldur sagði meðal annars að innan lögreglunnar væri nú verið að beita svívirðilegum aðferðum í valdatafli, allt til þess að koma honum úr embætti. Lögreglumenn bæru út um hann róg, níð og lygar en jafnframt sagði Haraldur of mikla fjármuni lögreglunnar renna til hátimbraðrar yfirmannbyggingar. Þetta er alveg munnfylli.

Viðtalið var viðbragð Haraldar við fréttum um ólgu innan lögreglunnar sem hafa rekið hver af annarri síðan í sumar og benda til þess að stemningin innan löggunnar sé eins og árshátíð vinnustaðarins hafi verið frestað þrjú ár í röð.

 

En Hnotskurn byrjar alltaf á byrjuninni. Stofnunin sem ber einfaldlega nafnið Ríkislögreglustjóri var stofnuð árið 1997. Haraldur Johannessen sjálfur hefur verið ríkislögreglustjóri, aðalmaðurinn, svo gott sem frá stofnun eða í 22 ár.Til að setja þetta í samhengi má benda á að næsti yfirmaður Haraldar er dómsmálaráðherra og Haraldur hefur setið í gegnum ellefu dómsmálaráðherra. Frá Þorsteini Pálssyni til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem fékk deilurnar innan lögreglunnar bókstaflega í fangið á fyrsta degi sínum í ráðherraembætti fyrr í september

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - RÚV og Alþingi

Ríkislögreglustjóri er skipaður í fimm ár í einu svo tæknilega séð á Haraldur þrjú ár eftir af nýjustu endurnýjun skipunar sinnar. Haraldur varð 65 ára í sumar en reglur um opinbera starfsmenn segja til um að þeir megi ekki vinna lengur en til sjötugs svo það er frekar borðleggjandi plan að klára til 68 ára aldurs og fara þá að sinna áhugamálunum í frið og ró. En málið er bara að það ríkir ekki friður og ró.

Fjölbreytt verkefni 

Til að hafa þetta algjörlega kýrskýrt. Ríkislögreglustjóri er yfirmaður lögreglumála á Íslandi. Það þýðir samt ekki að hann sé beinlínis næsti yfirmaður allra lögreglustjóra á landinu og svo koll af kolli niður í  sumarstarfsmenn sem fá að hafa talstöð í beltinu og hjóla um miðbæinn á góðvirðisdögum, taka myndir á Instagram og fá sér ís með börnum sem hafa stjörnur í augunum. 

Nei Ríkislögreglustjóri hefur ekkert með starfsmannahald lögreglustjóranna að gera, hann stýrir ekki fjármagni embættanna og hefur ekkert með rannsóknir að gera. Hann hefur hins vegar yfirumsjón með verklagsreglum og samhæfingu á milli embættanna.

Ríkislögreglustjóri stýrir líka sérsveitinni, sem er svona tiltölulega óháð öllum svæðisskiptum lögregluembættum. Svo stýrir Ríkislögreglustjóri greiningardeildinni, sem er það næsta sem við Íslendingar komumst því að eiga leyniþjónustu. Hann stýrir fjarskiptamiðstöðinni sem tekur á móti öllum neyðarsímtölunum og kemur þeim á rétta staði til löggunnar, hann stýrir almannavörnum, alþjóðadeild og bílamiðstöðinni en um þá síðastnefndu hafa deilurnar meðal annars staðið.

Þyrnum stráð samskipti

Forsíðuviðtal Haraldar við moggann kom út þann 14. september. Degi síðar sagði RÚV frá því að lögreglustjórar væru frekar skúffaðir yfir viðtalinu en enginn vildi þó tjá sig formlega. Þann 23. September, stigu lögreglustjórar landsins þó fram og lýstu því yfir að Haraldur nyti ekki trausts þeirra.

Formaður lögreglustjórafélags Íslands, Úlfar Lúðvíksson, fór fram fyrir hönd hópsins og lýsti því að félagið væri sameinað í afstöðu sinni fyrir utan einn mann, Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Mynd með færslu
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum sem Haraldur nýtur trausts hjá

Í þessari frétt hér segir Úlfar frá því að samskipti lögreglustjórafélagins við Ríkislögreglustjóra hafi verið þyrnum stráð undanfarin fimm ár. Þó fyrstu fréttir af deilum innan lögreglunnar hafi borist í sumar kom fram á dögunum að Haraldur sagði sig úr lögreglustjórafélaginu í maí síðastliðnum með þeim orðum að “óhæði ríkislögreglustjóra gagnvart lögreglustjórum sé skýrara og óumdeildara standi hann utan félagsins.“

Hann setti í raun sjálfur upp þá stöðu að félagið gat tiltölulega óáreitt fundað um Ríkislögreglustjóra þar til niðurstaðan varð vantraust. Förum aðeins yfir um hvað deilurnar snúast. Það er nefnilega langt frá því að þetta snúist um eitthvað eitt.

Það sauð upp úr öllum pottunum í einu. Og eitt barn var grátandi inni í stofu, hitt barnið búið á klósettinu og þú stendur inni í eldhúsi að sópa upp glerbrot af gólfinu en ert samt að verða seinn í vinnuna. Þetta er þannig mál.

Kerrur og klæði

Í fyrsta lagi er það Bílamiðstöð Ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri sér semsagt um að kaupa öll farartæki lögreglunnar í landinu, bíla, mótorhjól og svo framvegis. Lögregluembættin leigja svo þessi ökutæki af Ríkislögreglustjóra og borga bæði fast leigugjald á mánuði til Ríkislögreglustjóra og kílómetragjald af hverjum keyrðum kílómetra. Og þetta finnst lögregluembættunum dýrt.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson

Samkvæmt frétt DV síðan í nóvember fóru til dæmis í kringum 260 milljónir bara í rekstur ökutækja hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2017. Þar þarf vissulega marga bíla á höfuðborgarsvæðið en vegalengdirnar eru ekkert stjarnfræðilegar svo þetta er alveg stór pakki. Lögregluembættin eru byrjuð að nota bílaleigubíla í auknum mæli og samkvæmt frétt DV er Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra hætt að bjóða upp á ómerkta lögreglubíla því það sé einfaldlega ódýrara að leigja þá frá bílaleigum en að fara í gegnum kerfið með þá.

Bílamiðstöðin hefur verið rekin með halla í gegnum árin og Ríkisendurskoðun hefur bent á að rekstur hennar hefði mátt vera betri en lögreglustjórarnir vilja meina að Ríkislögreglustjóri hafi velt þessum halla til lögregluembættanna með því að þau borgi meira og meira til hans og bílamiðstöðvarinnar fyrir bílana.

Þó DV hafi verið komið með fingurna í þetta áralanga deilumál í nóvember í fyrra er það eitt þeirra sem sprakk fullkomlega síðsumars. Þá kom fram að lögreglustjórarnir líta svo á að Ríkislögreglustjóri hafi ofrukkað lögregluembættin fyrir bílana sem nemur hundruðum milljóna króna.

Þegar Mike Pence kom til landsins kom til dæmis í ljós að ódýrara væri að flytja löggumótorhjólin á vörubíl út á Keflavíkurflugvöll en að keyra þau þangað og aftur til baka til að sækja varaforseta Bandaríkjanna í hans stuttu heimsókn hingað. Sjö tíma heimsókn varaforsetans kostaði lögregluna á höfuðborgarsvæðinu eina og hálfa milljón bara í bensíngjald til Ríkislögreglustjóra. Aftur, þetta er alveg pakki.

Samkvæmt frétt RÚV frá 5. Júní eru lögreglustjórarnir til dæmis pirraðir yfir því að hafa aldrei fengið að sjá bókhald bílamiðstöðvarinnar en þá var jafnframt talað um að óreiða væri í fjármálum Ríkislögreglustjóra. Í september ákvað dómsmálaráðherra svo að leggja Bílamiðstöðina niður frá og með áramótum og nú er hafin vinna í ráðuneytinu við að finna aðra lausn á ökumálum löggunnar, sem allir gætu verið sáttir við.

Einelti í garð sérsveitarmanna

Ókei þá eru bílarnir frá. Þriðja júní, um nákvæmlega sama leyti og bílavesenið var í gangi, sagði Fréttablaðið frá því að dómsmálaráðherra sem þá var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefði fengið bréf frá sérsveitinni. Eitthvað sem fengi kannski alla aðra en dómsmálaráðherra til að svitna á efrivörinni.

Í kvörtunarbréfinu kom fram að menn væru óánægðir með það sem var sagt vera framkoma og hátterni Ríkislögreglustjórans sjálfs í garð ákveðinna lögreglumanna. Eins væri óánægja með að sérsveitarmönnum á landsbyggðinni hefði fækkað og t.d. væri bara einn sérsveitarmaður á Akureyri. Einn maður getur varla verið sveit. Ókei einn sérnáungi var eftir á Akureyri og ástandið sagt slæmt.

Formaður Lögreglufélags Reykjavíkur lét svo hafa eftir sér að ítrekað hefði verið kvartað undan Haraldi og hann sakaður um ógnar- og óttastjórn.

Mynd með færslu
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd:
Sérsveitarmenn við störf við Ægisíðu

Snemma í september var svo sagt frá því að að minnsta kosti tvær kvartanir lægju inni í dómsmálaráðuneyti vegna meints eineltis Haraldar í garð tveggja sérsveitarmanna. Haraldur svaraði þessu í viðtalinu í Morgunblaðinu og sagði meðal annars: 

„Í sumum tilvikum eiga í hlut starfsmenn þar sem stjórnendavald Ríkislögreglustjóra hefur þurft að koma við sögu. Skiljanlega eru ekki allir starfsmenn sáttir við að forstöðumaðurinn þarf stundum að grípa inn í varðandi starfshætti og framkomu starfsmanna”

En fyrir utan allar funheitu kartöflurnar sem Ríkislögreglustjóri þarf að bíta í þessa dagana þá ríkja líka deilur um fatakaup lögreglunnar. Varaformaður Landssambands lögreglumanna hefur meðal annars sagt að það ríki villta vestrið þegar kemur að fatakaupum á lögreglumenn. Engin stefna hafi verið mörkuð og lögreglustjórarnir kaupi jafnvel fatnað frá fleiri en einum stað sem að endingu gæti reynst löggæsluyfirvöldum í landinu töluvert dýrara en ef einhverju skikki yrði komið á fatakaupin.

Sumir tala jafnvel um að það reynist ansi erfitt að safna saman hóp lögreglumanna í samstæðum fötum. Búningurinn sé orðinn meira og minna einhver samtíningur. Það er alvarlegt tískuslys í uppsiglingu. 

Hjaðningavíg og viðkvæmar yfirlýsingar

Haraldur Johannessen furðar sig á öllum þessum deilumálum og segir sjálfur að um hjaðningavíg sé að ræða sem skili engu. Á sínum 22 ára ferli hafi hann aldrei þurft að þola aðrar eins árásir eins og nú standi yfir og þær skrifist á valdatafl og markmið undirmanna sinna við að koma honum frá. Í margumræddu viðtali við Moggann segist hann hafa hugmyndir um að fækka lögreglustjórum á landinu í einn til hagræðingar enda renni miklir fjármunir í hátimbraða yfirmannabyggingu lögreglunnar. Skoðun og ummæli sem eðlilega renna ekkert endilega ljúft ofan í sjálfa yfirmennina.

Þrátt fyrir vantraust lögreglustjóranna og þá staðreynd að starfslok Haraldar voru meðal annars rædd í sumar, þegar Þórdís Kolbrún var dómsmálaráðherra, ætlar hann að sitja áfram.

Áslaug Arna, nýr dómsmálaráðherra, gaf það út á þriðjudegi fyrir viku síðan að fundur hennar og Haraldar hefði leitt til þeirrar niðurstöðu. Staðan er samt aðeins flóknari. Blaðamenn hafa nefnilega reynt að lesa í yfirlýsingar Áslaugar sem hefur meðal annars sagt að embætti Ríkislögreglustjóra njóti fulls trausts hennar en hún hefur ekki endilega sagt að Haraldur sjálfur njóti þess. 

Ritstjóri Reykjavíkur Vikublaðs, Björn Jón Bragason.
 Mynd: - - Björn Jón Bragason
Björn Jón Bragason blaðamaðurinn sem hefur hitað undir Haraldi undanfarið

Bréfsefnismálið

Víkur þá sögunni að síðasta málinu sem hefur að undanförnu truflað Harald Johannessen. Árið 2016 gaf Björn Jón Bragason fjölmiðlamaður út bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? en í henni kom fram umfjöllun um efnahagbrotadeild lögreglunnar sem áður heyrði undir Ríkislögreglustjóra.Til að gera langa sögu stutta var Haraldur óánægður með gagnrýnina sem sett var fram í bókinni og hafði samband við Björn Jón og bað hann að koma í “létt spjall” um innihald bókarinnar. Af þeim fundi varð þó aldrei því Björn Jón hafnaði því að funda með Haraldi. Í mars 2018 skrifaði Haraldur því bréf til Björns Jóns og Sigurðar Kolbeinssonar þáttastjórnanda á Hringbraut sem hafði fjallað um bókina. Í niðurlagi bréfsins, sem er ritað á bréfsefni embættis Ríkislögreglustjóra segir:

„Ljóst er að af ásetningi var ekki leitað til okkar við gerð bókarinnar og gefið tækifæri til að greina frá staðreyndum máls eða svara rangfærslum. Hins vegar buðum við þér í desember 2017 að ræða við okkur og kynna þér gögn málsins. (…) Þótt fyrir liggi að umfjöllun bókarinnar sé markleysa er sýnt að þú berð ábyrgð á ólögmætri meingerð gagnvart þeim sem umfjöllunin beinist gegn.“

Samkvæmt frétt Stöðvar 2 um málið lítur Dómsmálaráðuneytið það víst mjög alvarlegum augum að bréfið hafi verið sent á bréfsefni embættisins og framsetning þess hafi verið ámælisverð. Dómsmálaráðuneytið sendi Haraldi Johannessen bréf í maí og sagði:

„Er það mat ráðuneytisins að þær upplýsingar sem fram komu í bréfunum hafi ekki að öllu leyti verið réttar og að framsetning þeirra hafi verið villandi og skapað óvissu fyrir viðtakendur bréfanna. (…)”

Fjölmiðlamennirnir tveir, Sigurður og Björn Jón, ákváðu að kvarta til umboðsmanns Alþingis yfir bréfinu. Umboðsmaður Alþingis er, fyrir þá sem ekki vita, stofnun sem hefur eftirlit með stjórnvöldum og tekur bæði við kvörtunum frá almenningi og hefur stundum sjálf frumkvæði að athugunum á málum.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjámynd - Alþingi
Umboðsmaður Alþingis kannar nú málið

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því að fá skýringar frá dómsmálaráðuneytinu um hvers vegna Haraldur var ekki áminntur þegar hann sendi fjölmiðlamönnunum bréfið á bréfsefni embættis Ríkislögreglustjóra og sakaði þá um glæpsamlegt athæfi, þ.e. að fremja ólögmæta meingerð.

Spjótin beinast að Haraldi

Tökum þetta saman. Spjótin sem nú beinast að Haraldi Johannessen eru semsagt merkt þessu: Bílamál. Fatamál. Einelti innan sérsveitarinnar. Stjórnunarhættir Haraldar. Viðtal í Morgunblaðinu og Bréfsefnið.

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í bréfsefnismálinu liggur ekki fyrir en það sem er kannski merkilegast í allri súpunni er að lögmaður Björns Jóns Bragasonar í því máli, Hreinn Loftsson, var fyrir helgi ráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra, og Björn Jón stendur því uppi lögmannslaus í bili. Hvað sem það nú þýðir.