Hnotskurn: Lyfjamál Hinriks Inga

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram

Hnotskurn: Lyfjamál Hinriks Inga

05.11.2019 - 11:15
Lyfjanotkun í íþróttum er umræða sem þagnar seint en um helgina kom hún aftur upp á yfirborðið eftir birtingu fjögurra þátta sem fjölluðu um Reykjavík CrossFit Championship sem fór fram á Íslandi í maí.

Fjallað var um málið í þætti vikunnar af Hnotskurn en ásamt lyfjadramanu og crossfit var fjallað um nýjustu plötu Kanye West, Jesus is King. Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér en hann er sömuleiðis á öllum helstu hlaðvarpsveitum. 


Við Íslendingar eigum afreksmenn í crossfit í löngum bunum og þær Annie Mist, Katrín Tanja og Ragnheiður Sara hafa verið yfirburðarkeppendur á heimsvísu auk þess sem Björgvin Karl Guðmundsson hefur verið öflugur í karlaflokkunum. Þessi íslensku nöfn eru svo stór í crossfit-heiminum að hér á landi í maí fór í fyrsta skipti fram alþjóðlegt crossfit-mót, Reykjavík CrossFit Championship.

Á YouTube-síðu Annie Mistar hafa síðustu daga birst myndbönd frá mótinu þar sem meðal annars er rætt við keppendur. Fjórir þættir birtust yfir helgina en á laugardag vakti Vísir athygli á því að fjórði þátturinn hefði verið fjarlægður. Í viðkomandi þætti var að finna viðtal við Hinrik Inga Óskarsson sem tekið var í aðdraganda mótsins, í viðtalinu þvertekur hann fyrir það að nota stera en nokkrum vikum síðar féll hann á lyfjaprófi. Það sem vakti kannski helst athygli var Instagram-póstur Hinriks sem birtist á laugardag, þar sem hann skrifar: „Ég vona að ykkur líði betur með ykkur sjálf eftir að hafa búið til þetta drasl, þið vitið hver þið eruð.” Þetta var ekki í fyrsta sinn sem lyfjamál koma upp í crossfit-heiminum og heldur ekki í fyrsta skipti sem þau koma upp hjá Hinriki Inga. 

Árið 2016 keppti Hinrik Ingi á Íslandsmótinu í crossfit. Hann vann keppnina, var krýndur Íslandsmeistari en neitaði eftir mótið að gangast undir lyfjapróf á vegum lyfjaeftirlits Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Greint var frá því að Hinrik hefði brugðist illa við beiðninni um að mæta í próf og hótað starfsmönnum lyfjaeftirlitsins barsmíðum sem hann sagði sjálfur síðar að hefði ekki gerst. Bergur Sverrisson, sem lenti í öðru sæti á mótinu var sömuleiðis sviptur silfurverðlaununum fyrir að neita að mæta í prófið.

Í yfirlýsingu frá Crossfit-sambandi Íslands og eigenda crossfit-stöðva á Íslandi sem gefin var út eftir mótið kom fram að yfirlýst markmið sambandsins væri að koma á skilvirku eftirliti með íslenskum crossfit-keppendum. Keppendur hafi gefið samþykki sitt fyrir lyfjaprófum meðan á keppni stendur og í allt að tólf mánuði eftir að keppni lýkur. Lyfjaprófið í lok Íslandsmótsins hefði því ekki átt að koma neinum á óvart. Crossfit-sambandið er ekki hluti af ÍSÍ en vegna þráláts orðróms um steranotkun í íþróttinni var ákveðið árið 2014 að fara í samstarf við lyfjaeftirlit ÍSÍ þegar kom að framkvæmd lyfjaprófa.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur

Birgir Sverrisson, verkefnastjóri hjá lyfjaeftirlitinu sagði í samtali við Vísi eftir Íslandsmótið árið 2016 að þrjár aðferðir séu notaðar við lyfjapróf, valið sé handahófskennt, sigtað eða ákveðið sé að prófa ákveðin sæti, yfirleitt verðlaunasæti, sem var raunin á Íslandsmótinu. Þá fullyrti formaður stjórnar Crossfit-sambandsins að öll framkvæmd lyfjaprófa væri í höndum lyfjaeftirlitsins og að sambandið kæmi ekki nálægt því eins og Hinrik vildi meina.

Í viðtali við RÚV eftir mótið sagði Hinrik að mennirnir sem hefðu tekið hann í prófið hefðu sagst vera með fyrirmæli frá Crossfit-sambandinu um að taka Hinrik í próf hvort sem hann kláraði mótið eða ekki, lenti í fyrsta sæti eða því tíunda. Hann segir sömuleiðis að hann hefði staðist lyfjapróf hefði hann tekið það og fullyrti að hann hefði aldrei tekið stera á ævinni. Í crossfit virkar það þannig að ef íþróttafólk neitar að fara í lyfjapróf er litið á það sem svo að það hafi fallið á því og þetta þýddi tveggja ára bann fyrir Hinrik frá öllum íslenskum crossfit-mótum og -viðburðum.

Og þá að kjarna málsins, þáttunum sem birtir voru um helgina og eru ástæða þess að umræðan um lyfjanotkun í crossfit er aftur orðin áberandi. Fjöldinn allur af crossfit-íþróttafólki mætti til Reykjavíkur í maí til að keppa um farmiða á heimsleikana. Sigurvegarar í hvorum flokki fyrir sig fengju farmiða á mótið en ef einhver sem nú þegar hafði tryggt sér keppnisrétt sigraði færi keppnisrétturinn til þess næsta í röðinni. Mótið hófst á hlaupi upp Esjuna og hélt svo áfram með tilheyrandi lóðalyftingum, hlaupum, hjólum og róðri. Hinrik Ingi endaði í öðru sæti á eftir Björgvini Karli sem hafði þegar komist áfram. Hann var því kominn með miða á stærsta crossfit-viðburð ársins. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hinrik Ingi á verðlaunapalli á Reykjavík CrossFit Championship.

Viðtalið við Hinrik er að finna í fjórða þættinum sem birtist eins og áður sagði á laugardag. Hann var stuttu síðar tekinn út en á sunnudag sagði Annie Mist að þátturinn hafi einungis verið tekinn út til að bæta við upplýsingum um það að Hinrik hefði fallið á lyfjaprófi í lok mótsins. Þegar þessi frétt er skrifuð er hins vegar búið að fjarlægja myndbandið á nýjan leik en hægt er að sjá fyrstu þrjá þættina um mótið.

Í viðtalinu í þættinum talar Hinrik meðal annars um Íslandsmótið örlagaríka árið 2016. Hann segir þetta stærstu mistök lífs síns þar sem hann hafi ekki áttað sig á því hverjar afleiðingarnar yrðu. Hann gat ekki æft í neinni opinberri crossfit-stöð, missti vinnuna, æfingafélagana og styrktaraðilana. Í lok viðtalsins er hann svo spurður hvort hann hafi einhvern tímann notað frammistöðubætandi lyf eða stera og svarið var ákveðið. „Nei aldrei, og ég mun aldrei gera það.“

Sunnudaginn eftir mótið voru þeir íþróttamenn sem enduðu á toppnum sendir í lyfjapróf í Reykjavík. Í prófi Hinriks mældust tvö efni sem eru á bannlista, ostarine og RAD-140, efni sem reyndar er verið að þróa sem lækningu við krabbameini sums staðar, en eru stranglega bönnuð í íþróttaiðkun. Í lyfjaprófum eru ávallt tekin tvö sýni og seinna sýnið frá Hinrik staðfesti þessar niðurstöður. Hann hlaut fjögurra ára bann frá öllum crossfit-keppnum og -viðburðum sem gildir til loka maí 2023. 

Hinrik birti færslu á Instagram í kjölfar þessa úrskurðar þar sem hann ítrekaði að hann hefði aldrei notað ólögleg efni. Eftir bannið sem hann fékk árið 2016 hafi hann verið settur á lista hjá Alþjóðacrossfitsambandinu sem heimilar því að taka hann í lyfjapróf hvenær sem er. Hann hafi því fastlega búist við því að vera prófaður eftir mótið í Reykjavík og hefði aldrei tekið þann séns að glata framtíð sinni í íþróttinni með því að nota ólögleg lyf sem hann vissi að hann yrði prófaður fyrir. Niðurstaðan úr prófinu hafi því komið honum gífurlega á óvart. Þá bætir hann við að mikilvægt sé að muna að alþjóðlega crossfit-sambandið sé einkarekið og það að græða pening sé meginmarkmið þess. Sambandið geti því ráðið því hverja það vilji sjá keppa á heimsleikunum og geti sjálft ákveðið hvað það geri við lyfjapróf. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Erla - RÚV

En hvers vegna er umræðan svona mikil um lyfjamisnotkun í þessari íþrótt? Keppendurnir eru vissulega að lyfta gífurlega þungum hlutum, hlaupa upp fjöll á mettíma, klifra kaðla, ganga á höndum og gera á tímapunktum hluti sem virðast einfaldlega ómannlegir. Er möguleiki að ná árangri í íþróttinni án þess að nýta sér aðstoð frammistöðubætandi efna og stera?

Umræðan kemur upp á yfirborðið reglulega og var í hámæli eftir að Jóhann Birgir Ingvarsson, handboltamaður, var dæmdur í sex mánaða keppnisbann í maí 2015. Hann féll á lyfjaprófi sem hann var boðaður í eftir bikarúrslitaleik karla og í sýninu var að finna vefaukandi stera. Jóhann varði sig með því að hann hefði fengið sopa af einhverjum drykk frá crossfit-vini sínum sem væri eins og „90% af crossfitturum að taka anavar.“ En anavar er ein vinsælasta tegund stera hér á landi.

Crossfit-samfélagið hefur hins vegar alltaf neitað fyrir það að slík menning sé til staðar. Þessi orðrómur er hins vegar ekki dreginn úr lausu lofti en á opinberri síðu crossfit-leikanna birtist til að mynda nýlega listi yfir sjö crossfittara sem allir voru dæmdir í tveggja til fjögurra ára bann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Þessir tilteknu íþróttamenn eru á ólíkum stöðum á styrkleikalistum en meðal þeirra er til að mynda Anna Fragkou sem lenti í níunda sæti á heimsleikunum í sumar. Það eru sem sagt til crossfittarar sem virðast nota frammistöðubætandi lyf og stera, en hvort þeir séu fleiri en venjulegt getur talist miðað við aðrar íþróttagreinar er erfitt að segja til um. 

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Hinrik Ingi féll aftur á lyfjaprófi

Íþróttir

Björgvin Karl vann - Hinrik á heimsleikana

Íþróttir

Stærsta CrossFit mótið á Íslandi hingað til

Íþróttir

Hinrik Ingi: „Hef aldrei tekið stera“