Hnotskurn: Hver er uppi með Kanye?

epa05998620 (FILE) US rapper Kanye West arriving for the 2016 Costume Institute Benefit at The Metropolitan Museum of Art in New York, New York, USA, 02 May 2016 (reissued 30 May 2017). Kanye West will celebrate his 40th birthday on 08 June 2017.  EPA/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA

Hnotskurn: Hver er uppi með Kanye?

06.11.2019 - 11:50
Ný plata Kanye West, Jesus is King, rauk rakleitt upp vinsældarlistann þegar hún kom út í lok október. Engin plata kappans hefur aftur á móti fengið daprari dóma frá hlustendum. Hnotskurn vikunnar fer aðeins yfir hvers vegna stjörnur í augum aðdáenda Kanye viku fyrir spurningamerkjum:

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að nýjasta plata tónlistarmannsins Kanye West sé á milli tannanna á fólki. Þótt platan beri heitið Jesus is King er Kanye West sjálfur, konungur umtalsins og hefur á síðustu plötum sínum hrist hressilega upp í umræðunni með því að segjast vilja r*** mágkonum sínum, bera einn ábyrgð á frægð söngkonunnar Taylor Swift og greint frá sjálfsvígshugsunum og banatilræðispælingum við einhvern ónafngreindan í laginu I thought about killing you.

Myndbandið við lagið Famous er, eins og frægt er orðið, samansafn af nöktum líkömum fræga fólksins þar sem þau sofa öll í einu gríðarstóru fleti. Við erum að tala um rassinn á Donald Trump og George W Bush, Rihönnu og Chris Brown liggja hlið við hlið – en hann lamdi hana meðan á ástarsambandi þeirra stóð, Taylor Swift er á svæðinu sælla minninga, eiginkona Kanye, Kim Kardashian er þarna við hliðina á Ray J – rapparanum sem var með henni á kynlífsmyndbandinu sem var lekið árið 2007 og tryggði eiginlega heimsfrægð hennar, Amber Rose, fyrrverandi kærasta Kanye West sem deilir raunar afmælisdegi með Kim, liggur í fletinu og Caitlyn Jenner, sem var maki móður Kim Kardashian áður en hún gekkst undir kynleiðréttingarferli liggur með allri hersingunni. Þetta er eins mikið á grensunni og það gerist.

Nýjasta platan, Jesus is King, níunda stúdíóplata West, kom út 25. október en hennar hafði verið beðið lengi. Raunar hafði ný plata frá Kanye átt að koma út í september og nóvember 2018, áður en henni var frestað um óákveðinn tíma.

Í lok ágúst birti Kim Kardashian svo handskrifaðan lagalista á Twitter og boðaði komu nýrrar plötu þann 27. september. Eftir hlustunarpartý tilkynnti Kim aftur að platan frestaðist en kæmi út 29. september. Þá hafði komið í ljós að Kanye væri ekki ánægður. Á afmælisdegi eiginkonu sinnar, 21. október, tilkynnti Kanye sjálfur að platan kæmi fjórum dögum síðar og það stóðst. Þegar platan fór svo loks að snúast voru viðbrögðin æði misjöfn.  

Það hefur varla komið út sú rappplata í Bandaríkjunum sem ekki hefur hinn einkennandi svarta og hvíta límmiða Parental Advisory, Explicit content. Stimplunin hefur verið gefin út af Samtökum hljómplötuiðnaðarins í Bandaríkjunum frá árinu 1985 og er ætlað að vara við orðalagi á þeim hljómplötum sem merkinguna fá. En á Jesus is king sneiðir West fram hjá öllum dónaskap og gestaflytjendur plötunnar þurfa sömuleiðis að gæta orðalagsins.

Það er því engan svartan og hvítan miða að finna á plötunni. West hefur sjálfur sagt að plötunni sé ætlað að miðla guðspjallinu og sannleikanum um hvað Jesús hafi gert fyrir hann. Raunar var einkaprestur West viðstaddur upptökur á plötunni og aðstoðaði við að laga textana svo boðskapur guðspjallanna kæmist betur til skila. Þema plötunnar er einfaldlega frelsunin, guðhræðslan og þjónustan við Jesú Krist. Að halda sig frá freistninni og forðast syndina. Í viðtali við Apple Music segir West frá því að hann hafi gengið svo langt að biðja fólk sem kom að gerð plötunnar að fasta og stunda ekki kynlíf utan hjónabands. Heppilegt fyrir hann að vera svona vel giftur.

Jesus is King er persónuleg pílagrímsferð Kanye West þar sem markmiðið er að frelsa alla þá sem ekki trúa. Platan er einfalt trúboð, og það eru ekki allir til í það.

Gagnrýnendur breska blaðsins Guardian gáfu plötunni tvær stjörnur af fimm, Rolling Stone tvær og hálfa og hlustendur á síðunni Metacritic gefa henni einkunnina 56 af hundrað. Það breytir því þó ekki að að þetta er níunda plata West í röð sem byrjar á toppnum á Billboard-listunum. Níu af níu. Hlustendur eru því spenntir enda skal engan undra. Þessi umtalaði tónlistarmaður slær alveg nýjan tón miðað við fyrri útgefin verk.

Frelsaður og frægur

Hafi fólk fylgst með Kanye West undanfarið ár þarf tónninn á Jesus is King ekki að koma neinum á óvart. Frá ársbyrjun hefur West leitt sínar eigin sunnudagsmessur en ansi margir settu spurningarmerki við hvað þær væru í raun og veru. Allt þar til almenningi gafst tækifæri til að taka þátt á Coachella-hátíðinni í apríl og orðið fór sannarlega að berast. West hefur fengið til liðs við sig risastóran gospel-kór sem rammar inn athafnirnar sem með predikurum minna að einhverju leyti á frekar hefðbundnar messur en eru þó mjög langt frá því sem kirkjurækið fólk í Bandaríkjunum á að venjast.

Í viðtali við Rolling Stones segir kórstjórinn, Jason White, frá kynnum sínum af West þegar hugmynd hans um sunnudagsmessurnar var að fæðast. Hvernig West fékk aðstoð við að endurskrifa fyrri texta sína til að fjarlægja blótsyrðin þannig að lögin samræmdust hans nýju hugmyndum um siðgæði. Þegar samstarfið hófst hafi White talið að það myndi endast í tvær til þrjár vikur en raunin sé sú að allt þetta ár hafi Kanye þróað áfram hugmyndir sínar um sunnudagsmessurnar og samstarfið því varað svo mánuðum skiptir. Þekktir hiphop og RnB slagarar hafa fengið nýja og guðlegri texta og þúsundir hafa lyft höndum til himins með Kanye West í tilbeiðslu sinni til guðs.

Í viðtalinu segir White, spurður um það hvort Kanye hafi þá þegar verið búinn að taka við guði: „Hann skynjaði að guð var skammt undan. Og guð gaf honum þá hugmynd að vilja semja öðruvísi tónlist. Guð afhendir þér ekki alltaf áætlun sína að fullu. Ég held að guð hafi ekki verið búinn að gefa Kanye það sem þú sérð í dag. En það byrjar smátt og Hann matar þig svo með tilganginum.“ Hann, í merkingunni guð.

via GIPHY

En trúin er fyrir ansi mörgum eitthvað meira en það sem skemmtikraftar geta borið á borð og því eru það ekki bara trúlausir aðdáendur Kanye West sem setja í brýrnar yfir hinni nýju stefnu. Á föstudag birti Time grein á vefnum með fyrirsögninni Hvernig hin umdeilda Jesus is King eftir Kanye West er að sundra samfélagi kristinna. Vó. 

Í greininni er farið yfir vangaveltur pistlahöfundar á Premier Christianity Magazine, því í Bandaríkjunum er markaður fyrir slík tímarit, sem segir að allt við sunnudagsmessurnar hafi yfir sér mikilmennskubrjálæðislegt yfirbragð. Ekki bara syngi gospelkórinn lög Kanye West heldur séu þau líka klædd í föt sem hann hefur sjálfur hannað. Er guð virkilega miðjupunkturinn í þessum athöfnum? spyr pistlahöfundurinn sig.

Annar sérfræðingur í kristinfræðinni, Alicia Crosby, er gagnrýnin á breytingarnar sem Kanye West hefur gert á gospeltónlistinni sjálfri og segir að það sé alveg hægt að segja halelúja í einhverju lagi, en það geri það ekki að gospellagi. Í öllu falli sé um mjög veika guðfræði að ræða sem muni rugla hlustendur, sérstaklega hvíta hlustendur.

Guðfræðingurinn Candace Bendow sagði þetta á Twitter

Og þar erum við kannski komin að kjarna málsins þegar kemur að mótspyrnunni sem Kanye West mætir núna. Hún er ekki bara trúarlegs eðlis heldur hugmyndafræðileg líka. Kanye hefur nefnilega lýst yfir stuðningi sínum við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Það hefur reynt ansi mikið á stuðning og trú helstu aðdáenda West undanfarið vegna þess sem hann hefur látið út úr sér. Með Make America Great Again derhúfuna í heimsókn hjá forsetanum sem hefur gert svo afskaplega fátt til að afmá rasíska stimpilinn af sér, hefur West vægast sagt stuðað aðdáendur sína. Hann sagði derhúfuna gefa sér kraft og það hafi verið frelsandi að gera eitthvað sem allir segja honum að láta kyrrt. 

Það var svo eins og hnífnum væri snúið í sárinu þegar West lét út úr sér snemma árs 2018 að 400 ára þrælahald svartra hljómaði eins og val. Andlegt fangelsi. Þau ummæli runnu ekkert sérstaklega smurt ofan í fólk.

Staðreyndin er engu að síður sú að um það leyti sem stuðningur Kanye West við forsetann umdeilda varð ljós og þessi undarlegu ummæli um þrælahald komu fram var West að glíma með geðhvarfasýki, sækja meðferð vegna hennar og koma út ansi breyttur maður. Kannski ekki auðmjúkur og bljúgur, það væri til of mikils ætlast af Kanye, en klárlega eitthvað breyttur. Og í liði guðs. 

Í áðurnefndri Time grein er hins vegar lítið gert út þessum breytingum og ýjað að því að þar fari frekar vel heppnað PR-stönt hjá tónlistarmanninum. Frægðarmenni með skandala á bakinu, á borð við Michael Jackson og OJ Simpson, hafi áður snúið sér að kirkjunni með mjög áberandi hætti til að lægja öldurnar og endurheimta stuðning frá þeirra helsta stuðningshópi, svörtum Bandaríkjamönnum. Þannig hafi Kanye West snúið sér að trúnni, snúið upp á tengsl hennar við stjórnmálin og afbakað allt saman. Frelsunin sé fyrst og síðast frelsun frá gagnrýni. West komist þar með í lið með guði, og það partí er staðsett skýjum ofar, á meðan við hin erum hérna niðri. Almúgafólk sem guð hefur ekki heiðrað með persónulegri nærveru sinni.

En almúginn hefur gefið Jesus is King plötunni einkunn á internetinu og einkunninn er ekki há. Í ljósi þess er það stóra spurningin hversu lengi Kanye West er til í að deila toppnum með guði.