Hnotskurn: Boxbardagar Logans Paul og KSI

Mynd með færslu
 Mynd: ET - YouTube

Hnotskurn: Boxbardagar Logans Paul og KSI

12.11.2019 - 15:10
Á laugardag fór fram áhugaverður bardagi milli Youtube-stjarnanna Logans Paul og KSI. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem drengirnir mætast í boxhringnum því í ágúst í fyrra börðust þeir á einum stærsta viðburðinum í sögu Youtube. Jafntefli var niðurstaðan þar en þeir lofuðu að bardaginn yrði endurtekinn sem gerðist loksins núna um helgina. Hverjir eru Logan Paul og KSI og hvers vegna eru þeir að keppast um að lemja hvern annan?

Fjallað var um bardaga Logan Paul og KSI í Hnotskurn vikunnar. Einnig var fjallað um nýtt frumvarp um lán námsmanna. Það er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni hér en hann er líka aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum. 


Olajide Olayinka Williams Olatunji, betur þekktur sem KSI, er 26 ára breskur YouTubari með rúmlega 20 milljónir fylgjenda. Upphaflega birti hann aðallega myndbönd þar sem hann talaði yfir tölvuleikinn FIFA. Með tímanum hefur hann farið meira út í að gera myndbandsblogg (vlog) og grínmyndbönd. Hann hefur líka gert rapplög og gaf út plöturnar Keep up árið 2016 og New Age 2019.

Áður en þeir Logan börðust í fyrra skiptið tók KSI þátt í áhugamannabardaga við breska YouTubarann Joe Weller. KSI vann þann bardaga sem meira en ein og hálf milljón horfði á í beinni útsendingu. Bardaginn var þá einn stærsti hvítflibba-, eða það sem á ensku kallast white-collar, boxbardaginn í sögunni. Í sigurvímunni skoraði hann á Jake Paul, bróður Logans Paul, að taka slaginn. Jake var hálfpartinn búinn að samþykkja það en á endanum ákvað Logan að taka boðinu.

Mynd með færslu
 Mynd: KSI - YouTube
Olajide Olayinka Williams Olatunji eða KSI

Það var ekki tilviljun að KSI skoraði á Logan Paul. Þeir höfðu lengi eldað saman grátt silfur á internetinu. Logan Alexander Paul er 24 ára bandarískur YouTubari með um 20 milljón fylgjendur eins og KSI. Hann varð vinsæll fyrir grín-sketsa í appinu Vine og stofnaði út frá því YouTube-rás. Hann hefur líka farið með gestahlutverk í sjónvarpsþáttunum Law&Order: Specials Victims Unit og Weird Loners og kvikmyndunum The Thinning og The Space Between Us og gefið út lag svo eitthvað sé nefnt.

Hann komst hins vegar í heimsfréttirnar snemma árið 2018 þegar hann birti myndband úr Aokigahara-skóginum í Japan. Skógurinn er víða þekktur sem sjálfsmorðsskógurinn þar sem margir kjósa að fara þangað til að binda enda á líf sitt. Myndbandið sem Logan birti á YouTube-síðu sinni sýndi líkama einhvers sem fallið hafði fyrir eigin hendi og þótti augljóslega bera merki um mikla vanvirðingu. Logan baðst bljúgur afsökunar á birtingu myndbandsins og sagðist skammast sín og vera vonsvikinn með sjálfan sig. 

KSI var meðal þeirra sem gagnrýndu Logan Paul hvað harðast eftir að myndbandið birtist og það var eitt af því sem leiddi til áskorunarinnar sem átti að skera úr um hvor þeirra væri betri boxari og betri YouTubari. Bardaginn sjálfur fór fram á Manchester leikvanginum og yngir bræður Logans Paul og KSI, hituðu upp með bardaga á undan bræðrum sínum.

KSI skoraði reyndar upphaflega, eins og áður sagði, á yngri bróður Logans, Jake Paul, en sagði samt að honum væri sama hvaða Paul hann myndi mæta. Jake samþykkti upphaflega áskornunina en ákvað síðar að leyfa eldri bróður sínum að taka bardagann og mæta í staðinn yngri bróður KSI, Deji.

Ákvað var að bardagarnir yrðu tveir, annar í Manchester í ágúst 2018 og hinn í Bandaríkjunum í febrúar 2019. Blaðamannafundirnir fyrir bardagann vöktu ekki minni athygli. Þar hæddust KSI og Deji báðir að kærustu Logans og föður hans, Greg Paul. Í kjölfarið réðust aðdáendur þeirra bræðra á bíla Logans og Jakes og svo næstum lá við málsókn. Bardaganum var streymt á YouTube og kostaði áhorfið 7,50 pund í Bretlandi og 10 dollara í Bandaríkjunum, sem eru um 1200 íslenskar krónur. Samtals halaði útsendingin inn um 11 milljónir bandaríkjadala eða tæplega 1,4 milljarða íslenskra króna. Margir voru ósáttir við að þurfa að borga fyrir áhorfið enda hafði fyrri bardaga KSI verið streymt frítt. Bardaganum var eftir á lýst sem stærsta viðburði í sögu netsins. Honum lauk með jafntefli þar sem tveir dómarar dæmdu jafntefli en sá þriðji dæmdi KSI í vil.

Seinni viðureignin átti að fara fram í febrúar. Ekkert varð úr henni þar sem drengirnir gátu ekki komist að niðurstöðu um hvar hún ætti að fara fram. KSI vildi berjast á hlutlausum velli í Dubai en Logan heimtaði að fá að vera heima í Bandaríkjunum. Þeir sættust loks á að berjast í Staples Center í Los Angeles 9. nóvember. Að þessu sinni átti viðureignin hins vegar ekki að vera áhugamannabardagi heldur myndu þeir berjast sem atvinnumenn, ekki með neinar höfuðhlífar eins og hafði verið í fyrra skiptið.

Hvorugur þeirra er reyndar atvinnuboxari en þrátt fyrir það voru þeir aðalnúmer kvöldsins. Margir sögðu þetta vera móðgun við íþróttina þar sem bardagarnir um WBO-millivigtartitilinn og WBC-léttvigtartitilinn voru leiknir á undan bardaga YouTubaranna. Aðrir voru bara frekar ánægðir með hversu fagmannlegir þeir félagar voru og hversu margir mættu til að horfa á bardagann, hvort sem var á leikvanginum eða netinu. 

Í þetta sinn vann KSI. Tveir dómarar dæmdu honum í vil en sá þriðji dæmdi Logan í vil. Logan var ekki sáttur við stig sem dómararnir tóku af honum sem hann telur að hafi kostað hann bardagann. Hann hafi vaknað veikur og það hafi haft áhrif á getu hans á vellinum. En burtséð frá því hvor sigraði þá hafa þessir bardagar vakið mikla athygli og drengirnir fengið stuðning úr ólíklegustu áttum. Söngvarinn hugljúfi Justin Bieber birti til að mynda mynd frá bardaganum á Instagram um helgina þar sem hann sagði að Logan hefði verið hinn raunverulegi sigurvegari. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

REALITY .. LOGAN PAUL CHAMPION

A post shared by Justin Bieber (@justinbieber) on

Það virðist ekki vera algjört hatur milli Logans Paul og KSI þó svo þeir láti vissulega líta út fyrir það. Mögulega er þetta bara eitt stórt fjölmiðlabragð til að græða pening á sem einfaldastan hátt, frekar en að þeir ætli að halda áfram og stefna að ferli í hnefaleikum.