Hnotskurn: Besti íþróttamaður allra tíma?

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Hnotskurn: Besti íþróttamaður allra tíma?

16.10.2019 - 14:30
Ég er ekki næsti Usain Bolt eða Michael Phelps, ég er fyrsta Simone Biles. Þetta sagði fimleikadrottningin Simone Biles eftir að hafa sigrað einstaklingskeppnina á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. Hún er að flestra mati besta fimleikakona allra tíma og sumir vilja meina að hún sé einfaldlega besti íþróttamaður allra tíma. Ferilskrá hennar er ótrúleg, fjöldinn allur af bandarískum titlum, heimsmeistaratitlum og Ólympíutitlum. En hver er Simone Biles?

Í hlaðvarpsþættinum Hnotskurn var farið yfir ævi og störf Simone Biles en þáttinn í heild sinni má hlusta á hér. Auk Simone Biles voru vandræði GAMMA útskýrð á mannamáli. 


Simone Ariana Biles er fædd 14. mars 1997 í Ohio í Bandaríkjunum. Hún er ein fjögurra systkina en uppvaxtarár hennar voru engin dans á rósum. Blóðmóðir hennar, Shanon Biles, glímdi nefnilega við áfengis- og vímuefnavanda og gat aldrei almennilega sinnt börnunum sínum. Faðir hennar, Kelvin, yfirgaf fjölskylduna þegar Simone var ung og var aldrei hluti af lífi dóttur sinnar. Simone og systkini hennar voru því inn og út af fósturheimilum í barnæsku þangað til faðir Shanon, Ron, og seinni kona hans, Nellie, ákváðu að taka Simone, og yngri systur hennar Adriu, að sér. Þær fluttu því til Houston í Texas til afa síns og ömmu sem urðu síðar pabbi og mamma þegar þau formlega ættleiddu stúlkurnar árið 2003.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Foreldrar Simone, Nellie og Ron, eru hér fyrir miðju.

Simone var að sögn foreldra hennar frekar ofvirkt barn. Þegar hún var sex ára fór hún í dagsferð í fimleikasal með leikskólanum sínum. Á meðan hún var þar lék hún sér að því að herma eftir fimleikafólkinu, svo vel að þjálfari á staðnum sendi hana heim með bréf til foreldra sinna þar sem hann hvatti þau til að senda hana í fimleika, sem þau gerðu. 

Í fimleikum keppa konur á fjórum áhöldum, stökki yfir hest, æfingum á tvíslá, jafnvægisslá og í gólfæfingum. Keppt er bæði í fjölþraut þar sem einkunnir á öllum áhöldum eru lagðar saman og eins á einstökum áhöldum þar sem verðlaun eru veitt fyrir besta árangurinn á hverju áhaldi fyrir sig.

Simone Biles lenti í þriðja sæti í fjölþrautinni á fyrsta móti sínu í unglingaflokki, America Classics, varð í fyrsta sæti fyrir æfingar sínar á stökki og jafnvægisslá, í fjórða sæti á gólfi og áttunda á tvíslá. Seinna í sama mánuði keppti hún á U.S. Classic mótinu þar sem hún lenti í 20. sæti í fjölþraut, varð fimmta á jafnvægisslá og á gólfinu. Árið eftir sigraði hún fjölþrautina á báðum mótum og vann sér inn keppnisrétt á bandaríska meistaramótinu, þar lenti hún í þriðja sæti í fjölþraut og fyrsta sæti á stökki. Eftir þátttöku sína á mótinu var hún valin í unglingalandsliðið og ljóst að framtíðin væri björt.

Árið 2013 fór hún svo að keppa í fullorðinsflokki, fyrsta mótið var America Cup í mars þar sem hún lenti í öðru sæti. Stuttu síðar keppti hún á alþjóðlegu móti á Ítalíu þar sem hún sigraði fjölþrautina og þrjú einstök áhöld auk þess að sigra með liði Bandaríkjanna í liðakeppninni. Sama ár var hún svo í fyrsta sinn krýnd bandarískur meistari í fjölþraut, hlaut silfurverðlaun á öllum einstökum áhöldum og var valin í landsliðið fyrir heimsmeistaramótið.

Það fór fram í Antwerpen í Belgíu og þar sigraði hún fjölþrautina með yfirburðum, 60,216 stig, næstum stigi á undan öðru sætinu. Þetta var í fyrsta skipti sem Simone setti mark sitt á söguna sem fyrsta þeldökka, bandaríska kona sögunnar til að hreppa þennan titil. Þrátt fyrir smávægileg axlameiðsli í upphafi 2014 varð Simone aftur bandarískur meistari. Hún hélt svo uppteknum hætti á heimsmeistaramótinu, varð heimsmeistari í fjölþraut í annað sinn, sigraði í liðakeppnina með bandaríska liðinu og fékk gull fyrir æfingar á jafnvægisslá og gólfi.

Og nú virtist ekkert geta stöðvað hana, hún sigraði mót eftir mót í Bandaríkjunum árið 2015, varð bandarískur meistari í þriðja sinn, aðeins önnur konan til að ná þeim árangri. Hún varð svo heimsmeistari í fjölþraut þriðja árið í röð, fyrst allra kvenna í sögunni. Hún hlaut einnig verðlaun á einstökum áhöldum og þannig komin með 14 verðlaun frá heimsmeistaramóti, meira en nokkur annar Bandaríkjamaður eða -kona. 

Það var svo 9. ágúst 2016 sem Simone vann sín fyrstu gullverðlaun á Ólympíuleikum. Þau komu í liðakeppninni þar sem hún og liðsfélagar hennar komu, sáu og sigruðu. Simone sýndi yfirburði sína í fjölþrautinni, varð Ólympíumeistari þar, á stökki og á gólfi en fékk bronsverðlaun fyrir æfingar á jafnvægisslá. Með þessum fernum gullverðlaunum setti hún bandarískt met fyrir flest gullverðlaun fimleikamanns eða -konu á einum Ólympíuleikum, auk þess var hún var fyrsta konan í heiminum síðan 1984 til að ná þessum árangri.

Og það má segja að þarna hafi sprengingin orðið, allir urðu meðvitaðir um  hver Simone Biles væri, talað var um að þarna væri á ferðinni besta fimleikakona allra tíma og óvíst væri hvort nokkur myndi nokkurn tíman ná að framkvæma jafn erfiðar æfingar og hún.

En líf atvinnufimleikakonunnar er ekkert grín og eftir að hafa æft nærri stanslaust frá því hún hóf atvinnuferilinn ákvað Simone að taka árið 2017 í það að slaka á. Hún gerði það sem margar af fimleikakonum landsins hafa gert, kom fram í sjónvarpsviðtölum, skrifaði sjálfsævisögu, lék í auglýsingum og tók þátt í raunveruleikaþættinum Dancing With the Stars. Þar sýndi hún hæfileika á dansgólfinu en var gagnrýnd fyrir að brosa of lítið. Hún svaraði þeim ummælum fullum hálsi: „Smiling doesn't win you gold medals,“ það að brosa færir þér ekki gullverðlaun.

Í þættinum eftir að ummælin féllu sagði hún dansfélaga sínum að síðast þegar hún hefði leyft sér að brosa og slaka á hefði það kostað hana Ólympíumeistaratitil. Þar vísaði hún í æfingar sínar á jafnvægisslánni á Ólympíuleikunum þar sem hún gerði smávægileg mistök sem leiddu til þess að hún lenti í þriðja sæti.

Og mistökin á slánni virðast hafa setið í henni. Fréttir af því að Simone væri komin aftur í fimleikasalinn bárust haustið 2017 og spennan var áþreifanleg í fimleikasamfélaginu. Gæti hún orðið jafn góð eftir rúmlega 14 mánaða pásu? Umræðan í fimleikasamfélaginu tók reyndar fljótlega U-beygju, og ekki af góðu gerðinni. Snemma árs 2018 sagði Simone frá því á Twitter að fyrrverandi liðslæknir landsliðsins, Larry Nassar, hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi.

Nassar eins og einhverjir kannski muna var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að brjóta á fjölmörgum stúlkum. Simone mætti í sína fyrstu keppni í júlí 2018 á US Classic mótinu í ljósbláum fimleikabol sem hún sagði eiga að heiðra þolendur Nassars. Hún nýtti líka sviðsljósið sem hún fékk á mótinu til að gagnrýna Bandaríska fimleikasambandið og aðgerðarleysi þeirra í tengslum við kynferðisbrot Nassars.

Á mótinu sigraði Simone fjölþrautina og setti stigamet í nýjum reglum sem teknar höfðu verið í gagnið sama ár, þrátt fyrir það hafi frammistaðan ekki verið fullkomin. Spurningum margra um hvort hún gæti nokkurn tíman orðið jafn góð og hún var fyrir pásuna sína var svarað: Hún var betri. Erfiðleikastigið var orðið meira í mörgum æfingum hennar og tvísláin, sem er hennar lakasta áhald, leit betur út en nokkru sinni fyrr. Hún endurtók leikinn á bandaríska meistaramótinu og var bandarískur meistari í fimmta sinn, sem var met. Þangað til hún bætti það sjálf með sínum sjötta titli fyrr í ár.

Á heimsmeistaramótinu í Katar 2018 sýndi hún enn og aftur í hvað henni bjó og sigraði fjölþrautina þrátt fyrir að æfingarnar væru langt því frá fullkomnar. Munurinn á frammistöðu hennar og þeirra sem kepptu á móti henni var einfaldlega það mikill að Simone hafði efni á þó nokkrum mistökum. Þar með var fjórði heimsmeistaratitilinn í fjölþraut kominn í hús og enn eitt metið bætt. Allt þetta er að sjálfsögðu ótrúlegt, en verður eiginlega enn ótrúlegra þegar það kom í ljós að daginn fyrir undankeppnina hafði Simone farið á bráðamóttökuna og greinst með nýrnasteina. Hún sem sagt varð heimsmeistari, með nýrnasteina. Einhverjir hefðu mögulega verið rúmliggjandi, en ekki Simone Biles.

Áfram hélt hún, á bandaríska meistaramótinu í ágúst í ár varð hún fyrsta konan til að gera tvöfalt heljarstökk með þrefaldri skrúfu á gólfinu og fyrsta konan til að gera tvöfalt heljarstökk með tvöfaldri skrúfu af jafnvægisslánni.

 

Í fimleikum er það svoleiðis að sá sem er fyrstur til að keppa á alþjóðlegu móti með nýtt stökk fær þau stökk nefnd eftir sér, á heimsmeistaramótinu í Stuttgart sem fram fór í síðustu viku, gerði Simone akkúrat það og er nú komin með fjögur Biles í bókina, fyrir átti hún tvö Biles,  á gólfinu og í stökki.

Í Stuttgart byrjaði Biles á að leiða lið sitt til sigurs í liðakeppninni og varð þar með sú fimleikakona sem hefur unnið til flestra verðlauna í sögu heimsmeistaramótsins. Hún sigraði svo í fjölþrautinni og fékk gullverðlaun í stökki, gólfi og jafnvægisslá og er orðin sú fimleikakona eða -maður sem á flest verðlaun af heimsmeistaramóti, alls 25. 

En er Simone Biles besti íþróttamaður allra tíma? Fern Ólympíugullverðlaun, 19 heimsmeistaratitlar og sex bandarískir meistaratitlar, ásamt fjölda annarra verðlaunum, segja í það minnsta sitt. Simone hefur sigrað fjölþrautina á hverju einasta heimsmeistaramóti sem hún hefur keppt á, hverju eina og einasta. Raunar hefur hún ekki tapað fjölþrautarkeppni á móti síðan 2013.

Nýja afstökkið af jafnvægisslánni, tvöfalda heljarstökkið með tvöföldu skrúfunni, muniði, er svo erfitt að alþjóðatækninefndin gaf því mun lægra gildi í reglunum en tíðkast er. Af hverju? Af því „það er svo erfitt að fimleikafólk ætti ekki að vera hvatt til þess að gera það,“ voru svör tækninefndarinnar. Í Tokyo 2020 gæti Simone orðið elsta konan í meira en fimm áratugi til að sigra í fjölþraut á Ólympíuleikum, hún er nefnilega orðin gömul af fimleikakonu að vera, þó hún sé bara tuttugu og tveggja. Eitt er víst að við ættum að njóta þess á meðan við getum að horfa á Simone Biles, besta fimleikamann, ef ekki besta íþróttamann allra tíma. 

Tengdar fréttir

Fimleikar

„Kemur fram einu sinni á hverri mannsævi“

Fimleikar

Biles heldur áfram að skrifa söguna

Fimleikar

Biles heimsmeistari í fjölþraut í fimmta sinn

epa07905738 Simone Biles of USA competes in the Balance Beam women's team Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 08 October 2019.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
Fimleikar

Simone Biles getur unnið sextánda HM gullið