Hnika til eða leigja nýjar vélar

15.03.2019 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Við erum að fara yfir þessa stöðu núna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, um yfirlýsingar bandarískra flugumferðaryfirvalda að Boeing ætli að kyrrsetja 737 MAX þotur fram í maí hið minnsta. Bogi Nils bendir á að Boeing hafi ekki enn tilkynnt þetta formlega.

Bogi Nils lét hafa eftir sér í Viðskiptablaðinu í gær að ef kyrrsetning vélanna af þessari gerð dregst á langinn og standi fram yfir páska muni það hafa valda vandræðum í leiðakerfi Icelandair. Þegar fréttastofa spurði hvernig brugðist yrði við nýjustu vendingum sagði Bogi Nils að þetta væri til skoðunar núna.

Icelandair hefur þegar tekið þrjár Boeing 737 MAX-8 þotur í notkun. Áætlað var að sex vélar til viðbótar myndu hefja áætlunarflug í leiðakerfi Icelandair í vor. Þrjár af þessum sex eru í innleiðingarferli í Keflavík og von var á þremur til viðbótar til landsins í vor. Þessi áform eru nú í uppnámi.

„Það kemur til greina að leigja aðrar vélar eða hnika til í leiðakerfinu,“ segir Bogi Nils. Spurður hvort gripið verði til einhverra aðgerða gagnvart Boeing segir Bogi það koma til greina.

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian sem á 18 sambærilegar vélar og Icelandair hefur sagst ætla að fara fram á að Boeing kosti það tjón sem kyrrsetning vélanna veldur.

„Við förum alveg sömu leið og önnur flugfélög. Þetta gerist bara þegar upplýsingar liggja fyrir og sá kostnaður sem þetta kann að valda,“ segir Bogi Nils. „Við erum væntanlega með svipaða samninga og önnur flugfélög.“

„Það á eftir að fara í gegnum samninga. Ef vélarnar eru ekki að uppfylla væntingar okkar þá óskum við eftir leiðréttingu á því,“ segir Bogi Nils.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi