Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Hlutverkið sem þjóðin á inni hjá Ladda“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hlutverkið sem þjóðin á inni hjá Ladda“

28.11.2019 - 11:17

Höfundar

Tökur standa yfir á sjónvarpsþáttunum Jarðarförin mín en þar leikur Laddi mann sem greinist með heilaæxli og ákveður að skipuleggja eigin jarðarför.  

Glass River framleiðir þættina fyrir Sjónvarp Símans en hugmyndina á Jón Gunnar Geirdal, sem er einna þekktastur úr kynningarbransanum.  

„Ég held að margir spái í hvernig jarðarför þeir vilji hafa og þannig vaknaði þessi hugmynd. Um leið þá kom þessi tenging við Ladda. Ég sá hann strax fyrir mér í þessu. En þetta er ekki hinn erkitýpíski Laddi eins og við þekkjum hann. Hann er búinn að vera í öllum fígúrum og gervum í 50 ár og fyrir mér er þetta hlutverkið sem þjóðin á inni hjá Ladda.“ 

Þórhallur Sigurðsson – Laddi – tekur undir að þetta sé ólíkt öllum öðrum hlutverkum sem hann hefur leikið. 

„Þetta er svona karlskratti sem er búinn að hálfloka sig af, skilinn við konuna og vorkennir sér. Ekki mikið grín í þessu. Ég hef oftast verið valinn í grínhlutverk en þetta er meiri alvara.“ 

Þættirnir fjalla um Benedikt, sem greinist með æxli í heila. Í stað þess að fara í lyfjameðferð ákveður hann að fara í tvísýna skurðaðgerð en vill hafa vaðið fyrir neðan sig og vera viðstaddur eigin jarðarför fyrst. 

„Þótt við séum að fjalla um krabbamein, dauðann og jarðarfarir þá er þetta samt brosleg og hjartahlý sería, sem fjallar líka um þessa skrítnu og skemmtilegu fjölskyldu, sem skilur ekki hvað Benedikt er að gera. Það er kannski skrítið að tala um jarðarför sem kómíska en þær geta svo sannarlega verið skemmtilegar líka,“ segir Jón Gunnar, sem skrifaði fyrstu drög að handritinu fyrir níu árum.   

„Það er magnað hvað það gerðist lítið lengi, þessi bransi getur hreyfst hægt. Svo er þetta búið að gerast á ljóshraða síðustu sex til átta mánuði,“ bætir hann við. Handritsteymið skipa þau Ragnar Eyþórsson, Sóli Hólm, Baldvin Z, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Kristófer Dignus. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á næsta ári. 

Menningin leit við á tökustað á Jarðarförinni minni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þarftu einhverja fleiri?“

Myndlist

„Ég er að frumsýna hérna fullt af karakterum“

Menningarefni

Laddi: „Hissa á að ég hafi lifað þetta af“

Menningarefni

Tíu karakterar Ladda á hálfri mínútu