Hlutastörf öryrkja eiga að skila sér í vasann

05.11.2018 - 16:30
Mynd: RUV / RUV
Formaður Öryrkjabandalagsins segir að lífeyrir öryrkja eigi að miðast við lágmarkslaun og hann eigi að duga fyrir framfærslu. Laun fyrir hlutastörf þeirra eigi að skila sér í vasann.

Stefnt að breytingum

Stefnt er að því að breyta framfærslukerfi öryrkja. Faghópur hefur verið að störfum frá því í fyrra um innleiðingu starfsgetumats. Búist er við hann skili tillögum fljótlega um hvernig matinu verður háttað. Starfshópur sem félagsmálaráðherra skipaði á þessu ári mun síðan, með hliðsjón af tillögum faghópsins, leggja fram tillögur um nýtt framfærslukerfi fyrir öryrkja. Það er að minnsta kosti hugmyndin. Hópurinn er skipaður fulltrúum stjórnmálaflokkanna og hagsmunaaðilum. Innan hópsins eru skiptar skoðanir.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að vissulega þurfi að breyta kerfum í takt við tíðarandann hverju sinni. Hún sé tilbúin að vinna með stjórnvöldum að jákvæðum breytingum en þær megi ekki verða til þess að öryrkjar verði í verri stöðu en þeir eru í dag.

„Heldur eiga þær að vera til þess að bæta stöðu örorkuþega í landinu. Því þetta er það fólk sem lifir á lægstu laununum og lægstu framfærslu. Það segir sig sjálft að það lifir enginn á 200 þúsund krónum á mánuði eða lægri upphæð. Hvað þá heldur þó að það séu 300 þúsund krónur. Það er bara erfitt að draga fram lífið á þeirri upphæð. Þannig að við þurfum að laga framfærsluna, það er alveg klárt," segir Þuríður Harpa.
 
Öryrkjabandalagið hefur harðlega gagnrýnt fyrir núverandi framfærslukerfi Tryggingastofnunar. Öryrkjar beri lítið sem ekkert úr bítum þó þeir geti haft aukatekjur. Þar ber hæst það sem kallað hefur verið króna á móti krónu fyrirkomulagið. Öryrki sem fær fullt örorkumat 50 ára og er með 45 þúsund krónur í aukatekjur fær sömu bætur eftir sem áður. Í þessu tilfelli þurrkast framfærsluuppbót upp á rúmlega 45 þúsund krónur alveg út. Þannig að í þessu tilfelli borgar sig ekki að vinna til að freista þess að fá fleiri krónur í vasann. Það eru margir öryrkjar sem geta og vilja vinna í hlutastarfi. Í könnun sem Gallup gerði fyrir félagsmálaráðuneytið kemur fram að 60% öryrkja telja að minni skerðing á bótum myndi helst styðja við atvinnuþátttöku en jafnframt fleiri hlutastörf og sveigjanlegur vinnutími. En hver er krafa Öryrkjabandalagsins? Eiga bætur að duga fyrir framfærslu og eiga aðrar tekjur að vera viðbót? 

„Framfærslan má aldrei fara undir lágmarkslaunum. Gólfið á að vera lágmarkslaunin. Það væri klókt af stjórnvöldum að taka burt þessa krónu á móti krónu skerðingu hjá því fólki sem getur farið út á vinnumarkaðinn. Þá geta þeir sem fara í hlutastörf og vinna kannski 20 til 30% vinnu, sem eru ekki há laun, komist hjá því að verið sé að skerða launin um 40 til 60 þúsund krónur. Þannig að það fái þessa peninga í vasann," segir Þuríður Harpa.

Unnið að mótun starfsgetumats

Í stefnuskrám síðustu ríkisstjórnar hefur verið stefnt að því að hér verði tekið upp svokallað starfsgetumat í stað örorkumats. Mjög einfaldað má segja að í starfsgetumati sé spurt um hvað viðkomandi geti gert og reynt er að þjálfa hann til starfa sem hann inni af hendi. Í örorkumatinu beinist hins vegar athyglin meir að því sem viðkomandi getur ekki gert og skort hefur á að matið miðist við að koma viðkomandi í vinnu. Þegar gerðar voru breytingar á lífeyrisgreiðslum aldraðra síðla árs 2016 var líka stefnt að því að í ársbyrjun 2017 yrði komið á laggirnar tilraunaverkefni um starfsgetumat. Öryrkjabandalagið sætti sig ekki við þær aðferðir sem til stóð til að nota við útreikning bóta. Á síðustu stundu var kaflanum um öryrkja kippt út úr frumvarpinu. Ekkert hefur síðan orðið úr breytingum á framfærslukerfi öryrkja þrátt fyrir háværar kröfur um breytingar. Nú er stefnt að starfsgetumati á nýjan leik. Öryrkjabanlagið hefur gagnrýnt það  út frá reynslu annara þjóða og Efling stéttarfélag hefur tekið undir þá gagnrýni. Þuríður Harpa segir að reynsla annara landa er að starfsgetumati hafi hvergi gengið upp eins og til var ætlast í upphafi.

„Á mörgun stöðum hefur starfsgetumat ekki aukið atvinnuþátttöku fólks, heldur þvert á móti. Þannig að við erum bara búin að sjá svo marga pytti sem fólk hefur lent í erlendis. Ég held að íslensk stjórnvöld og við öll verðum að vanda okkur í þessu litla landi okkar til að fólk lendi ekki í þessum pyttum hér," segir Þuríður Harpa.

Öryrkjum sem glíma við geðræn vandamál hefur fjölgað á undanförnum árum og ekki síst meðal ungs fólk. Þuríður segir mikilvægt sé að grípa inn í eins snemma og hægt er til að hjálpa þessum öryrkjum. Hér óttist menn að með starfsgetumati sé verið að einblína á sparnað ríkisins. En vill Öryrkjabandlagið ekki meiri breytingar en afnám krónu á móti krónu fyrirkomulagsins? Þuríður Harpa bendir á að það hafi haldið öryrkjum frá því að fá sér vinnu. Hún segist vissulega vilja breytingar en allt frá aldamótum sé búið draga öryrkja í gegnum hverja nefndina á eftir annarri. Hún vonast samt eftir því að hægt verði að komast að ásættanlegri niðurstöðu sem gagnist þeim sem veikastir eru. Hún segir að kerfið þurfi að hvetja til bata. Fólk eigi að hafa hag af því að fara út á vinnumarkaðinn.

„Við þurfum að sjá til þess að fólk sem er veikt fái frið til að sinna sínum veikindum og ná bata. Og síðan þurfum við að sjá það að ef þú ert ekki í þeirri stöðu að geta ekki unnið þá farir þú í það skjól serm örurkulífeyririnn veitir. Ef þú vilt og getur farið að vinna átt þú að fá aðstoð til að komast út á vinnumarkaðinn," segir Þuríður Harpa.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi