Hlíðaskóli vann Skrekk

Mynd: Fréttir / Fréttir

Hlíðaskóli vann Skrekk

11.11.2019 - 22:39

Höfundar

Hlíðaskóli stóð uppi sem sigurvegari Skrekks, hæfileikahátíðar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, í kvöld með atriðinu „Þið eruð ekki ein.“ Atriðið fjallar um mikilvægi þess að eiga góða að þegar stigið er fram sem hinsegin einstaklingur. Árbæjarskóli lenti í öðru sæti og Hagaskóli í því þriðja. Átta skólar kepptu til úrslita í kvöld í beinni útsendingu á RÚV.

Yfir 600 unglingar úr samtals 24 grunnskólum tóku þátt í Skrekk í ár með frumsömdum atriðum sinna skóla. Unglingarnir spreyttu sig í leiklist, söng, dansi, hljóðfæraleik, búningahönnun, förðun ljósum, hljóði og annarri sviðsvinnu.

Dómnefnd kvöldsins skipuðu Elísabet Indra Ragnarsdóttir, fulltrúi Hörpu tónlistarhúss, Halla Björg Randversdóttir, fulltrúi Borgarleikhúss, Gréta Kristín Ómarsdóttir, fulltrúi Þjóðleikhúss, Lóa Kolbrá Friðriksdóttir, fulltrúi Ungmennaráðs Samfés, Elín Signý W. Ragnarsdóttir, fulltrúi Íslenska dansflokksins og Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu sjá Skóla og frístundasviðs. Sigfríður stýrði vinnu dómnefndar.