Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hleðslustöðvar vítt og breitt um landið

25.10.2019 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Orkusjóður hefur úthlutað styrkjum til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði á landinu. Þar með er bílaleigum gert auðveldara um vik að bjóða upp á rafbíla í sínum flota. Þær stöðvar sem hlutu styrk dreifast vítt og breitt um landið.

Af þeim sem hlutu styrk úr Orkusjóði eru 13 stöðvar á Austurlandi, 16 á Norðurlandi, 15 á Vesturlandi og 21 á Suðurlandi. Auk þess bætast við sex stöðvar á höfuðborgarsvæðinu og þrjár á Suðurnesjum. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir úthlutun styrkja hafa dreifst vel um landið sem ýti undir heildræn orkuskipti í samgöngum.

„Ég myndi segja það af það að það hefur verð hluti af því að menn eru hikandi við að taka upp rafbíla, eða sumir þrátt fyrir að þetta séu yfirburða tækni þannig séð fyrir bifreiðar, af því að drægni sem slík er kannski ekki orðin mikið vandamál með fullt af frambærilegum bílum sem eru í 400 til 500 kílómetra raundrægni. Menn hafa sett þessi lengri ferðalög fyrir sig,“ segir Sigurður.

Tilkoma stöðvanna hjálpi til við að gera lengri ferðalög á rafbílum mögulegri. Það komi sér vel fyrir bílaleigubíla sem hafa að sögn Sigurðar setið eftir í orkuskiptunum. Hann segir orkuskipti bílaflotans komin mjög stutt, en séu samt á hraðri leið til batnaðar. Það taki langan tíma að skipta út bílaflota. Nauðsynlegt sé að orkuskiptin gangi hraðar fyrir sig.

„Vegna þess að vegasamgöngur eru stærsti einstaki losunarþátturinn þegar kemur að beinum skuldbindingum okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu og bílar hafa meðal lífaldur upp á tólf til þrettán ár. Sem þýðir það að þeir bílar sem koma núna inn í kerfið, eru nýskráðir í dag og á morgun og svo framvegiss, þeir verða tikkandi í bókhaldið sem við skilum  2030. Svo það er rosalega mikilvægt núna að fá ekki mikið af nýjum bílum inn í kerfið sem eingöngu ganga á bensín og dísil. Því þeir munu vega þungt þegar kemur að skuldardögum 2030,“ segir Sigurður.

Mynd með færslu
Dreifing styrkþega um landið