Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hlær að selveiðibanninu

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Stefnt er að því að banna allar selveiðar vegna þess hve mikið sel hefur fækkað. Dýravistfræðingur segir að ástæða fækkunarinnar sé ekki ljós. Formaður samtaka selabænda hlær að tillögunni vegna þess að engar selveiðar séu lengur stundaðar.

Atvinnuvegaráðherra hefur kynnt drög að nýrri reglugerð um bann við selveiðum. Drögin eru nokkuð skýr. Í fyrstu grein er kveðið á um bann við veiðum á öllum selategundum við Ísland. Allar selveiðar verði óheimilar á íslensku forráðasvæði, í sjó, ám og vötnum. Þó verður hægt eða mögulegt að fá sérstakt leyfi frá Fiskistofu til selveiða til eigin nytja. Leyfi Fiskistofu miðast við veiðar á sel innan netalagna á stöðum þar sem þær hafa eða verða stundaðar sem búsílag. Strangar reglur verða um þessa veiði. Allt verður nákvæmlega skráð og tilkynnt.  

Landselur í bráðri hættu

Ástæðan fyrir banni við selveiðum nú er að margir óttast um stofn bæði landsels og útsels. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar sem gefinn var út í haust um spendýr eru landselir taldir í bráðri hættu eða í efsta hættuflokki. Útselurinn er talinn vera í nokkurri hætti.

Hafrannsóknastofnun hefur í samvinnu við Selasetrið á Hvammstanga metið stærð landselastofnsins sem var byggð á talningu sem fram fór í fyrrasumar. Niðurstaðan bendir til fækkunar en markmiðið er að stofninn skuli að lágmarki vera 12.000 þúsund dýr. Talningin bendir til að selastofninn sé 21% undir þessu lágmarki og að sel hafi fækkað mikið frá 1980. Hafrannsóknastofnun leggur til í ljósi þessa að bannað verði að veiða landsel. Einnig verði leitað leiða til að draga úr því að landselur sé meðafli við netaveiðar. En vita menn hvers vegna sel hefur fækkað svo mikið við Ísland?

„Nei, það er ekki til nein alhliða skýring á þessari miklu fækkun," segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Hún segir að komið hafi fram ýmsar skýringar en athygli veki að selum hafi ekki fækkað eins mikið í öðrum löndum. Það sé eiginlega bara á Íslandi sem sel hafi fækkað.

Upplysingar skortir

 Það á að banna veiðar á sel en spurning er hvort einhverjar veiðar séu stundaðar. Ester segir að upplýsingar skorti um þær.

„Það eru ekki til nein lög eða þannig sem halda utan um selina að því leyti að þeir njóti einhverrar verndar. Það er engin skráning á veiðum," segir Ester Rut.

Hugsanlega megi leita skýringa í hjáveiðum á sel en upplýsingar um þær séu ekki fyrir hendi.
Því hefur verið haldið fram að fækkað hafi í þekktum sellátrum vegna ágangs ferðamanna. Ester Rut segir að sýnt hafi verið fram á það að á sumum stöðum hafi ágangur ferðamanna neikvæð áhrif á afkomu sela. Hugsanlega geti selir fært sig til.

„En það er klárt mál að ágangur ferðamanna hefur ekki jákvæð áhrif á stofninn."

Pétur Guðmundsson er formaður samtaka selabænda. Hann er æðardúnsbúndi í Ófeigsfirði á sumrin og veiðir nokkra kópa sér og sínum til matar. En hver eru viðbrögð hans við því að banna eigi selveiðar?

„Það eru svo sem ekki mikil viðbrögð. Ég hlæ bara að þessu vegna þess að það eru ekki neinar selveiðar," segir Pétur.

Hann hefur ekki skýringar á fækkun sela við Íslands. Fjölgun hafi orðið í Ófeigsfirði. Hins vegar hafi honum verið sagt að sel fækki aðallega við ósa laxveiðiáa. Hann gruni að selur sé veiddur þar.
Hann rekur fækkunina líka til 9. áratugarins þegar markvisst var stefnt að því að fækka sel. Hann var talinn mikill skaðvaldur vegna hringorma sem berast úr sel í þorsk. Samkvæmt talningu 1980 var talið að selastofninn teldi 33 þúsund dýr. Landselsstofninn var árið 2016 kominn niður í 7.600 dýr og hafði samkvæmt því fækkað um 77% á 36 árum.

„Það var farið mjög harkalega í þær aðgerðir og þær voru illa ígrundaðar. Við vorum alltaf á móti því að gera svona hluti."

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Pétur Guðmundson

Borgað fyrir að veiða sel

Hringormanefnd var sett á laggirnar um 1980. Markmiðið með henni var að fækka sel vegna þess að hann var millihýsill hringorms. Þó að sjávarútvegsráðherra skipaði nefndina voru það hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem greiddu kostnað við hana. 1982 byrjaði nefndin að greiða fyrir hvern veiddan sel. Það ár var greitt fyrir 4.500 veidda seli. Kjötið var um tíma nota í loðdýrafóður eða urðað. Árið 1989 voru greiddar 13 milljónir vegna selveiða eða yfir 46 milljónir á núvirði. Þá voru drepnir tæplega 4.700 selir. Í viðtali við Morgunblaðið þá segir Erlingur Hauksson starfsmaður nefndarinnar að áætlað sé að landselir hér við land séu um 40 þúsund og útselir 10-12 þúsund.

Tekist á um hringorminn

Á níunda áratugnum var tekist harkalega á um selveiðar á Alþingi. Sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, lagði þá fram frumvarp í þrígang sem fjallaði um að selurinn ætti að heyra undir sjávarútvegsráðuneytið en ekki landbúnaðarráðuneytið. Frumvarpið var að lokum fellt í efri deild. En átökin voru fyrst og fremst um hringorminn sem var talinn mikill skaðvaldur fyrir sjávarútveginn.

Guðmundur J. Guðmundsson, Alþýðubandalagi og formaður verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, sagði á þingi að í sumum landshlutum hefði hringormur þrefaldast í þorski. Laun fiskverkafólks við að tína orminn úr flökum næmu hundruðum milljóna. „Ég býst við að hægt væri að hækka laun verkafólks í fiskiðnaði um þriðjung ef þessum útgjaldalið væri ekki til að dreifa," sagi Guðmundur J. á þingi 1986. Gunnar G. Schram, Sjálfstæðisflokki, sagði ljóst að hringormurinn væri mikill skaðvaldur. Við það bættist svo að selurinn æti sem svaraði til ársafla 20 togara.

Markmiðið að útrýma sel

Pétur Guðmundsson fullyrðir að sel hafi fækkað um helming á níunda áratugnum eða þeim tíma sem hringormanefnd starfaði. Markmiðið hafi verið að útrýma sel við landið

„Þeir töldu að öll vandamál fiskvinnslunnar væru vegna þess að það væri selur við landið. Þeir þurfa ekki að fara nema um 50 mílur norður þá er þeir komnir með svona um milljón seli á ísnum. Það hefur miklu meira að segja en þessir 20 þúsund landselir hérna," segir Pétur Guðmundsson.