Atvinnuvegaráðherra hefur kynnt drög að nýrri reglugerð um bann við selveiðum. Drögin eru nokkuð skýr. Í fyrstu grein er kveðið á um bann við veiðum á öllum selategundum við Ísland. Allar selveiðar verði óheimilar á íslensku forráðasvæði, í sjó, ám og vötnum. Þó verður hægt eða mögulegt að fá sérstakt leyfi frá Fiskistofu til selveiða til eigin nytja. Leyfi Fiskistofu miðast við veiðar á sel innan netalagna á stöðum þar sem þær hafa eða verða stundaðar sem búsílag. Strangar reglur verða um þessa veiði. Allt verður nákvæmlega skráð og tilkynnt.
Landselur í bráðri hættu
Ástæðan fyrir banni við selveiðum nú er að margir óttast um stofn bæði landsels og útsels. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar sem gefinn var út í haust um spendýr eru landselir taldir í bráðri hættu eða í efsta hættuflokki. Útselurinn er talinn vera í nokkurri hætti.
Hafrannsóknastofnun hefur í samvinnu við Selasetrið á Hvammstanga metið stærð landselastofnsins sem var byggð á talningu sem fram fór í fyrrasumar. Niðurstaðan bendir til fækkunar en markmiðið er að stofninn skuli að lágmarki vera 12.000 þúsund dýr. Talningin bendir til að selastofninn sé 21% undir þessu lágmarki og að sel hafi fækkað mikið frá 1980. Hafrannsóknastofnun leggur til í ljósi þessa að bannað verði að veiða landsel. Einnig verði leitað leiða til að draga úr því að landselur sé meðafli við netaveiðar. En vita menn hvers vegna sel hefur fækkað svo mikið við Ísland?
„Nei, það er ekki til nein alhliða skýring á þessari miklu fækkun," segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Hún segir að komið hafi fram ýmsar skýringar en athygli veki að selum hafi ekki fækkað eins mikið í öðrum löndum. Það sé eiginlega bara á Íslandi sem sel hafi fækkað.
Upplysingar skortir
Það á að banna veiðar á sel en spurning er hvort einhverjar veiðar séu stundaðar. Ester segir að upplýsingar skorti um þær.
„Það eru ekki til nein lög eða þannig sem halda utan um selina að því leyti að þeir njóti einhverrar verndar. Það er engin skráning á veiðum," segir Ester Rut.
Hugsanlega megi leita skýringa í hjáveiðum á sel en upplýsingar um þær séu ekki fyrir hendi.
Því hefur verið haldið fram að fækkað hafi í þekktum sellátrum vegna ágangs ferðamanna. Ester Rut segir að sýnt hafi verið fram á það að á sumum stöðum hafi ágangur ferðamanna neikvæð áhrif á afkomu sela. Hugsanlega geti selir fært sig til.
„En það er klárt mál að ágangur ferðamanna hefur ekki jákvæð áhrif á stofninn."
Pétur Guðmundsson er formaður samtaka selabænda. Hann er æðardúnsbúndi í Ófeigsfirði á sumrin og veiðir nokkra kópa sér og sínum til matar. En hver eru viðbrögð hans við því að banna eigi selveiðar?
„Það eru svo sem ekki mikil viðbrögð. Ég hlæ bara að þessu vegna þess að það eru ekki neinar selveiðar," segir Pétur.
Hann hefur ekki skýringar á fækkun sela við Íslands. Fjölgun hafi orðið í Ófeigsfirði. Hins vegar hafi honum verið sagt að sel fækki aðallega við ósa laxveiðiáa. Hann gruni að selur sé veiddur þar.
Hann rekur fækkunina líka til 9. áratugarins þegar markvisst var stefnt að því að fækka sel. Hann var talinn mikill skaðvaldur vegna hringorma sem berast úr sel í þorsk. Samkvæmt talningu 1980 var talið að selastofninn teldi 33 þúsund dýr. Landselsstofninn var árið 2016 kominn niður í 7.600 dýr og hafði samkvæmt því fækkað um 77% á 36 árum.
„Það var farið mjög harkalega í þær aðgerðir og þær voru illa ígrundaðar. Við vorum alltaf á móti því að gera svona hluti."