Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hjúkrunarrými, nýr spítali og sígarettur

12.09.2019 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: Heilbrigðisráðuneytið
Ríkisstjórnin ætlar að verja tæpum 260 milljörðum króna til heilbrigðismála á næsta ári, samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi. Af þessum 260 milljörðum fara átta milljarðar í verðlags- og launabætur, en þetta er um átta prósenta hærri fjárhæð en var í síðasta fjárlagafrumvarpi, sem nemur 20 milljörðum. Heilbrigðisráðherra er með 12 mál fyrir komandi þing. Sígarettur með bragði verða bannaðar á næsta ári.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra birtir á vef ráðuneytisins sínar helstu áherslur varðandi heilbrigðiskerfið á næsta ári. Þar segir að þjónusta við aldraða, styrking heilsugæslunnar, lægri greiðsluþátttaka sjúklinga, efling geðheilbrigðisþjónustu og innleiðing nýrra lyfja verði sett á oddinn. Þá er ótalið uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut sem er einnig sett í forgang. 

Hefja reglubundna bólusetningu gegn hlaupabólu

Ráðherra ætlar að setja 200 milljónir í að efla heilsugæsluna og halda áfram eflingu geðheilsuteyma um allt land. Hundrað milljónir fara aukalega í það verkefni á næsta ári. Þá verður þjónusta heilsugæslunnar við aldraða aukin með 200 milljónum til að innleiða heilsueflandi heimsóknir. Framlög til heilbrigðisþjónustu fanga hækka um 90 milljónir. 40 milljónir fara í reglubundna bólusetningu barna við hlaupabólu, sem hefst á næsta ári. 

300 milljónir fara í að draga úr greiðslum sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Haft er eftir Svandísi í tilkynningunni að það þurfi að jafna aðgengi fólks að þjónustunni og hún þurfi að verða áþekk því sem gerist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Til stendur að setja 800 milljóna króna viðbótarframlag ár hvert næstu fjögur ár. 

13 milljarðar í hjúkrunarrými og nýjan Landspítala

Ráðherra ætlar að setja 3,7 milljarða í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarrýma fyrir aldraða, með sérstaka áherslu á að fjölga rýmum fyrir fólk með heilabilun. Þetta er aukning um tæpa tvo milljarða frá fyrri fjárlögum. Þar fer stærsti bitinn í 100 ný hjúkrunarrými á nýju heimili við Sléttuveg í Reykjavík og verður það tekið í notkun á árinu. 

Nýr Landspítali við Hringbraut fær 8,5 milljarða á næsta ári. Þá hefst uppsteypa meðferðarkjarnans og einnig verður unnið að fullnaðarhönnun rannsóknahússins. Í undirbúningi er að flýta uppbyggingu dag-og göngudeildarhúss við Hringbraut og verður ráðist í þarfagreiningu vegna þess á árinu með þátttöku starfsfólks Landspítala. 

Neyslurými fyrir fíkla fyrst á dagskrá

Samkvæmt nýframlagðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er heilbrigðisráðherra með 12 mál á sinni könnu. 

Í október ætlar Svandís að leggja fram tvö frumvörp, annað um neyslurými og hitt um lyf. Frumvarpinu um neyslurýmið á að koma á fót rými þar sem fíklar geta fengið aðstöðu og búnað til að nota fíkniefni á öruggari hátt þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Þetta er liður í skaðaminnkun til að koma í veg fyrir veikindi og dauða fíkniefnaneytenda. Með nýjum lyfjalögum verða gerðar breytingar á regluverki lyfja í samhengi við EES samninginn. Meðal þeirra breytinga sem lögin fela í sér eru flutningur verkefna lyfjagreiðslunefndar til Lyfjastofnunar og Landspítala, dýralæknum verði gert að sækja um sértækt lyfsöluleyfi, aukið hlutverk lyfjanefndar Landspítala og stofnun lyfjanefndar. 

Stofnanir hætta að innheimta gjald

Ráðherra ætlar að leggja fram þrjú frumvörp í nóvember. Eitt er um málefni aldraða, þar sem innheimta gjalds frá fólki sem dvelur á stofnun fyrir aldraða verði hjá stofnun á vegum hins opinbera, en ekki dvalarheimilisins sjálfs. Þá á að breyta ýmsum lögum vegna nýju persónuverndarlaganna og breyta lögum um heilbrigðisþjónustu, sem felur í sér að henni verður skipt upp í þrjú stig til samræmis við nýja heilbrigðisstefnu. Hlutverk heilbrigðisstofnana verður skýrt og ábyrgð og valdsvið forstjóra heilbrigðisstofnana betur skilgreint. 

Auknar kröfur til lækningatækja

Eftir áramót, í janúar 2020, er eitt mál á dagskrá hjá heilbrigðisráðherra, sem er frumvarp til laga um lækningatæki. Það felur í sér innleiðingu evrópskum reglum sem eykur kröfurnar sem tækin þurfa að uppfylla, meðal annars varðandi framleiðendur tækjanna og eftirfylgni með lækningatækjum á markaði veður aukin. Klínískar rannsóknir með tækjunum verða meiri og sett verður upp auðkenniskerfi í þeim tilgangi að geta rakið lækningatækið, meðal annars til að koma í veg fyrir fölsun. 

Sjúkratryggingar fá meiri heimild

Ráðherra leggur fram tvö frumvörp í febrúar, það fyrra um sjúkratryggingar sem á að auka heimild stofnunarinnar til eftirlits og skerpa á reglum. Hið seinna er um slysatryggingar og á að endurskilgreina bótarétt vegna slysa við ferðir til og frá vinnu auk þess sem afmarka þarf hugtök og atvinnusjúkdóma. Jafnframt verður lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um það á hvers konar örorkumati varanleg örorka byggist.

Banna sígarettur með bragði

Í mars ætlar Svandís að breyta lögum um lífsýnasöfn og vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, sem er aðgangur að heilbrigðisgögnum. Þannig á að gera gagnagrunna og lífsýnasöfn opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafi tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Síðan verður lögð fram þingsályktunartillaga um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Ráðherra gefur skýrslu til Alþingis um fimm ára aðgerðaráætlun sína til að hrinda heilbrigðisstefnunni í framkvæmd. Ráðherra leggur fram frumvarp í apríl um tóbaksvarnir og innleiðingu evrópskra reglna. Þá verður bannað að selja tóbak með einkennandi bragði sem og tilteknum aukefnum í tóbaksvörum. Þá verða settar reglur um jurtavörur til reykinga.