Hjónin Wael og Feryal fengu dvalarleyfi

16.02.2016 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sýrlensku hjónin Wael Aliyadah og Feryal Aldahsah hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Þau komu til landsins ásamt tveimur dætrum sínum í júlí síðasta sumar eftir að hafa verið föst á Grikklandi í heilt ár. Hún hafði verið á flótta í tvö ár. Íslensk kona gekk fram á fjölskylduna þar sem hún hafði komið sér fyrir á Ingólfstorgi eftir komuna til landsins.

Rauði krossinn greinir frá dvalarleyfinu á Facebook-síðu sinni. Þar kemur fram að hjónin hafi fengið fréttirnar eftir að hafa farið með dæturnar á leikskóla. „Þau voru glöð og fegin að fjölskyldan væri nú óhult. Nú tekur við nýr kafli í lífi fjölskyldunnar,“ segir í færslunni.

Núna í morgun var mikil gleði í lítilli íbúð í miðborg Reykjavíkur. Eftir að hafa rölt með þær Jana og Jouli í leikskó...

Posted by Rauði krossinn on 16. febrúar 2016

Mikið hefur verið fjallað um mál fjölskyldunnar í fjölmiðlum. Hún sagði sögu sína fyrst í Kastljósi í september í sérstökum þætti sem helgaður var flóttamönnum. Hægt er að horfa á innslagið hér að neðan. Útlendingastofnun synjaði fjölskyldunni um efnislega meðferð í október. Ástæðan var að fjölskyldan væri nú þegar með hæli í Grikklandi.

Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd - Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði stjórnvörld verða að standa við orð sín. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, óskaði eftir fundi í allsherjarnefnd til að ræða stöðu fjölskyldunnar. Hún taldi að fjölskyldan gæti fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæða. 

Visir.is greindi frá því að starfsmenn á leikskóla dætranna ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda stelpunum hér á landi - ótækt væri að senda þær aftur til Grikklands.

Um fimm þúsund skrifuðu undir áskorun til íslenskra stjórnvalda um að veita fjölskyldunni hæli á Ísland í desember. „Ef við verðum send burt förum við á götuna“, segir Wael í samtali við fréttastofu. 

Mynd: Kastljós / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV