Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hjón höfða mál gegn ríkinu og þjóðskrá

08.02.2015 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Hjón sem komu með tvíbura til Íslands í maí 2014, sem þau höfðu eignast með aðstoð staðgöngumóður í Bandaríkjunum, hafa höfðað mál gegn íslenska ríkinu og þjóðskrá til að fá stöðu sína viðurkennda. Þetta er fyrsta mál af þessu tagi sem höfðað er hér á landi.

Önnur hjón, sem einnig eignuðust tvíbura í Bandaríkjunum, eru með sambærilegt mál í undirbúningi. Þau börn eru að verða sex ára. Í báðum tilvikum er konunum neitað um viðurkenningu á því að þær séu mæður barnanna í lagalegum skilning en faðerni barnanna hefur verið viðurkennt. 

Staðgöngumæðrun er ólögleg hér á landi og í gær greindi Reykjavík vikublað frá því að í að minnsta kosti tveimur tilvikum hafi foreldrar reynt að leyna uppruna barna, sem fædd eru á þennan hátt, við komuna til landsins. Svo var ekki í þessum tilfellum og var yfirvöldum tilkynnt strax við komuna til landsins að börnin hefðu fæðst með aðstoð staðgöngumæðra.

Hugsanlegt er að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði leyfð hér á landi. Starfshópur sem unnið hefur að drögum að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skilaði nýverið af sér skýrslu til velferðarráðuneytisins og er búist við að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi fljótlega. 

Hrefna Friðriksdóttir, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, sem átti sæti í starfshópnum, segir fólk taka áhættu með því að koma með börn til landsins á þennan hátt. „Það viðrist liggja alveg fyrir að það er ekki hægt að vita með vissu eða kortleggja það fyrirfram hver verður réttarstaða barns sem er komið með hingað til lands í kjölfar staðgöngumæðrunar erlendis. Það fer mikið eftir því hvaða reglur í því landi sem komið er frá, hvernig staðið er að staðgöngumæðruninni, hvaðan kynfrumur koma og hvaða leiða er leitað eftir heimkomuna. Við höfum lýst því yfir hér á landi að þetta sé ekki í samræmi við það sem við teljum rétt og þar af leiðandi er eðlilegt að það sé flókið og jafnvel erfitt að fá endanlega niðurstöðu sem fólk óskar eftir.“

Leiðrétting: Í fréttinni kom áður fram að konurnar væru bandarískar. Það er ekki rétt, þær eru íslenskar. Staðgöngumæðurnar eru hins vegar bandarískar.