Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hjólastígur í kringum Mývatn

07.02.2012 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Hjólreiðafólk getur í framtíðinni hjólað hringinn í kringum Mývatn ef áform Skútustaðahrepps ganga eftir. Sveitarfélagið vill leggja 40 km hjólastíg í kringum vatnið.

Hjólastígurinn er kominn inn í aðalskipulagstillögu Skútustaðahrepps sem nú er í vinnslu. Þar er gert ráð fyrir því að stígurinn liggi við hlið þjóðvegarins, nær Mývatni, þar sem þess er kostur og eins er gert ráð fyrir að nýta gamla slóða þannig að rask á umhverfi verði sem minnst.  Að sögn Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur, sveitastjóra Skútustaðahrepps, mun stígurinn stuðla að öruggari umferð á þjóðveginum, en mikið er um hjólandi og gangandi fólki í Mývatnssveit á sumrin.

„Í annan stað þá held ég að það gæti verið liður í ákveðinni afþreyingu það er að geta farið þessa leið og það sé svona önnur upplifun heldur en að fara þjóðveginn,“ segir Guðrún.
 
Að sögn Guðrúnar er óvíst hvenær ráðist verður í verkefnið þar sem ekki er enn búið að fjármagna það. „Við breytingar á vegalögunum sem tóku gildi að mig minnir 1. janúar 2008, þá er heimild til Vegagerðarinnar að koma með fjármagn að svona framkvæmdum. Það hefur held ég ekki verið gert áður en það er kannski það sem við erum að horfa til núna. Það er allt í lagi að láta sig hlakka til en þetta er spurning hvenær við verðum komin með þennan fína hjólastíg sem við ætlum okkur að koma í gegn,“ segir Guðrún.