Hinsegin helgi var fyrst haldin í Reykjavík árið 1999 í tilefni af því að 30 ár voru frá uppreisninni í Stonewall. Gleðigangan fór svo sína fyrstu ferð niður Laugaveginn ári síðar. Fjallað er um upphaf Hinsegin daga í heimildarþáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Svona fólk, sem sýndir verða á RÚV í haust.
„Aðrir höfðu frumkvæði að því að hafa samkomu á Ingólfstorgi í júní 1999,“ segir Heimir Már Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinsegin daga. „Það var ekki mikið auglýst annars staðar en innan „gay“ kreðsunnar. Engu að síður komu 1.500 manns og meirihlutinn af þeim var „straight“.“ Þar var fræjum Gleðigöngunnar sáð. Nokkrum dögum síðar hafði Heimir samband við Veturliða Guðnason. Ákveðið var að endurtaka leikinn og þá með göngu niður Laugaveg.
Það leist hins vegar ekki öllum vel á hugmyndina. „Það voru ekkert allir á því að það ætti að hafa göngu. Fólk hélt að við myndum líta út eins og fífl; við yrðum sárafá töltandi niður Laugaveginn og það yrði bara hlegið að okkur.“