Hjaltalín með glaðlega fortíðarþrá

Mynd: © Florian Trykowski / floriantrykowski.de

Hjaltalín með glaðlega fortíðarþrá

05.07.2019 - 16:20

Höfundar

Í dag var frumflutt glænýtt og gleðilegt sumarlag með hljómsveitinni Hjaltalín. Í þetta sinn er það níundi áratugurinn sem er lofsunginn en lagið heitir Love from 99 og er ljúfsár óður til fortíðarinnar.

Högni Egilsson söngvari Hjaltalín er staddur í Liguriahéraði á Ítalíu að njóta lífsins og hlaða batterýin eftir annasama tíma í stúdíóinu. Nýtt lag hljómsveitarinnar, Love from 99, sem frumflutt var í Popplandi í dag er glaðlegt sumarlag um táningsást og vel í takt við árstíð og veðurfar.

Högni segir hljómsveitina hafa staðið í ströngu við að taka upp efni í nokkur ár og er ljóst að nýrrar plötu, sem er væntanleg á haustdögum, er beðið með mikilli eftirvæntingu en Love from 99 verður einmitt að finna á henni. „Við viljum vanda okkur mikið, gefa þessu tíma og leyfa hlutunum að hafa sinn gang,“ útskýrir Högni. Biðin sem aðdáendur hafa mátt þola verður blessunarlega ekki mikið lengi en platan, sem geymir 15 lög, er nú í hljóðblöndun og vonir standa til að hún verði komin út í byrjun hausts. „Fyrst og fremst er þetta afrakstur þess sem við gerum best, að semja fallega tónlist og góða takta,“ segir hann sposkur.

Laugardagskvöldið 7. september verður útgáfunni fagnað með stórtónleikum sveitarinnar í Eldborg í Hörpu en þá mun hljómsveitin leika lög af nýju plötunni í bland við eldra efni. Hægt er að hlýða á nýja lagið og viðtal við Högna í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Barónessa með Hjaltalín í Vikunni

Popptónlist

Hjaltalín og Aron Can byrja árið með látum