Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjálpa Norðurlandabúum að komast heim

21.03.2020 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hafa ákveðið að efla enn frekar samstarf landanna til að koma þeim Norðurlandabúum til aðstoðar sem eiga á hættu að verða strandaglópar í útlöndum. Um fjögur þúsund Íslendingar sem nú eru á ferðalögum erlendis hyggja á heimferð á næstu dögum. 

Verulega hefur dregið úr flugsamgöngum á síðustu vikum og fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að hætta sé á að allar flugleiðir lokist um næstu mánaðamót.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði í gær með utanríkisráðherrum hinna Norðurlandanna til að ræða aðgerðir vegna Covid-19 faraldursins og hvernig megi hjálpa þeim Norðurlandabúum, sem nú eru á ferðalögum erlendis, að komast aftur heim.

„Við höfum stillt saman borgaraþjónustur okkar og erum að nýta þau kerfi sem við höfum til þess að hjálpa Norðurlandabúum til að komast til síns heima. Við erum að sýna það í verki að Norðurlandasamstarfið á ekki bara við þegar vel gengur heldur líka á tímum sem þessum,“ segir Guðlaugur Þór.

Um 9 þúsund Íslendingar hafa skráð sig í gagnagrunn borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá því honum var komið á fót í lok síðasta mánaðar. Um 3 þúsund eru þegar komnir heim og 4 þúsund til viðbótar hyggja á heimferð á næstu dögum.

„Við höfum varað fólk við ónauðsynlegum ferðalögum . Það er auðvitað heimsfaraldur og í ofanálag þá er mikil hætta á því að fólk lokist inni ef það síðan seinna ætlar að koma sér heim. Mörg lönd eru þannig að þú vilt helst ekki lenda í sóttkví þar,“ segir Guðlaugur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV