Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjálmar mættu Kölska í Bjarnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV

Hjálmar mættu Kölska í Bjarnarfirði

24.06.2019 - 13:23

Höfundar

Reggíhundarnir í Hjálmum hafa heimsótt fjölmarga staði á hringferð sinni um landið síðasta mánuðinn og hitt margt skemmtilegt fólk. Margir hafa verið vélaðir í hljóðupptökur með sveitinni og á því varð engin undantekning þegar hundurinn Kölski varð á vegi þeirra í hinum göldrótta Bjarnarfirði.

Hljómsveitin Hjálmar hefur síðasta mánuðinn ferðast um landið, aftur á bak. Hún er nú komin aftur á Vesturlandið eftir að hafa rennt úr borginni í austurátt og heimsótt Suðurlandið, Austfirðina og Norðurland, með viðkomu meðal annars í Vestmannaeyjum, Hveragerði, Djúpavogi, Seyðisfirði og Varmahlíð. Leið þeirra liggur nú um Vestfirði áleiðis til Hafnarfjarðar, þar sem síðasti viðkomustaður þeirra verður í Bæjarbíói sunnudaginn 30. júní og fengum við veður af þeim í hinum rammgöldrótta Bjarnarfirði.

Í Bjarnarfirði má finna heilsulindina Hótel Laugarhól, heimilislegt og fjölskyldurekið gistihús með veitingastað, íþróttasal, ylvolgri sundlaug og heitum náttúrupotti. Þar er greinilega boðið upp á ýmsa dagskrá allt árið sem má kynna sér hér. Eftir að Hjálmar höfðu haldið vel heppnaða tónleika í íþróttasalnum að Laugarhóli heimsóttu þeir staðarhaldara á næsta bæ, sem er Svanshóll.

Svanshóll dregur nafn sitt af Svani, miklum bragðakarli sem kunnur er úr Njálu og var frændi Hallgerðar langbrókar. Svanur var sonur Bjarnar þess sem nam land í Bjarnarfirði og er hann fyrsti nafntogaði galdramaðurinn á Ströndum. Hans er getið í Landnámu, Grettis sögu og Laxdælu og svo hefur hann heilmikil áhrif á gang mála í Njáls sögu. Á Svanshóli hittu Hjálmar fyrir varðhundinn Kölska og vitaskuld var það eina í stöðunni að taka með honum lagið. Fyrir valinu var lagið Bréfið, af plötunni Hljóðlega af stað frá árinu 2004, og er eftir söngvarann Þorstein Einarsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV
Hjálmar og Kölski tóku lagið saman að Svanshóli.

Framundan eru tónleikar í hinum víðfræga Vagni á Flateyri, Frystiklefanum á Rifi Snæfellsnesi og Bíóhöllinni á Akranesi áður en þeir ljúka hringnum í Hafnarfirði. Upplýsingar um ferðalag Hjálma má finna á Facebooksíðu sveitarinnar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Grilllokið glefsar sem kjaftur út í vindinn

Tónlist

„Aðflugan á það til að setjast að“

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“

Tónlist

Nýtt vín á gömlum belg frá Júníusi Meyvant