Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjá Geirfuglum er gaman

Hljómsveitin Geirfuglarnir
 Mynd: RÚV

Hjá Geirfuglum er gaman

06.03.2020 - 15:36

Höfundar

Hinir gáskafullu Geirfuglar voru að gefa út plötuna Hótel Núll á dögunum en meira en áratugur er liðinn frá þeirra síðustu plötu sem kom út árið 2008.

Geirfuglarnir er hljómsveit sem á tildrög sín í Menntaskólanum við Sund. Þessir nokkru, en algerlega einstöku fuglar, hófu starfsemi á öndverðum tíunda áratugnum og viðhófst sprellifyllt hljómleikahald um borg og bý. Fyrsta platan kom svo út 1998 (Drit). Ári síðar var það svo Byrjaðu í dag að elska, Trúðleikur kom 2000 (tónlist við leikrit), Tímafiskurinn árið 2001 og Árni Bergmann rekur lestina 2008 (og þá hafa Geimfuglarnir, raftónlistarútibú sveitarinnar, landað tveimur plötum).

Ég er búinn að hlusta töluvert á Hótel Núll undanfarna daga og hví? Af skyldurækni? Jú, en samt er ég búinn að hlusta óvenju oft. Og ástæðan fyrir því er einföld. Þetta er svo skemmtileg plata! Eitt af því sem heldur manni sperrtum er fjölbreytnin. Geirfuglar hafa alla tíð leikið sér með alls kyns þjóðlagatónlist; það eru polkar og rælar, flamenkó og írskir straumar, klezmer og vísnatónlist. Innan um eru svo hrein popp/rokklög og jafnvel tilraunamennska. Manni leiðist því aldrei. Allt er þetta haganlega saman sett og punkturinn yfir i-ið eru svo bráðsmellnir textar. Ekki er örgrannt á því að andi Spilverksins og Stuðmanna skjóti upp kolli, þessi hreini og algerlega óviðjafnanlegi gleðitónn sem er bráðsmitandi (sorrí, er að hugsa um ákveðið).

Platan dúndrast af stað, „Kópavogsfundurinn“ kemur á harða spretti upp að skilningarvitunum og rígheldur manni frá fyrsta mandólínslagi. Pogues á ólöglegum hraða. Næsta lag, „Fjórtán tvö“, gerir upp mestu niðurlægingu íslenskrar knattspyrnu á algerlega óborganlegan hátt. Tónlistin ekki ósvipuð því sem The Wonder Stuff voru að gera um svipað leyti og Geirfuglarnir fæddust, blöndun á nýbylgjupoppi og þjóðlagatónlist. Hei, má maður vera poppfræðingur! Það er svona vinjettubragur á textaboðskap Geirfuglanna – og hann er í senn borgar- og þjóðlegur. Skondnar lýsingar á lífinu á malbikinu, pælingar um sveitamennsku og sniðug rýni í íslenskt hversdagslíf.  Enda heita tvö lög hérna „Dalalíf“ og svo „Reykjavík“.

„Fulla frænkan“ snertir á uppákomum sem allir þeir sem hafa farið í brúðkaup þekkja, aðilanum sem er aaaaaðeins of lengi á hljóðnemanum. Og þannig vindur plötunni áfram. „Elmar Hrafn“ er nettröll og á „Tilskipun“ dettur sveitin niður á þetta mjög svo burðuga kántrílag, í ekta Gram Parsons stíl. „Bingó“ er kerknislegt lag „án söngs“ og svipað má segja um „Svínabóndinn“ sem er undurfurðuleg stemma. Plötunni er slaufað með titillaginu, ljúfri rökkurstemmu. Ég hef sosum ekki meira að segja. Vel heppnuð plata og skemmtileg, góður vitnisburður um samtakamátt góðra vina og en ein sönnunin á því að tónlist er best!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Geirfuglarnir - Hótel Núll

Popptónlist

Geirfuglarnir á flugi í Vikunni með Gísla Marteini

Tónlist

Of mikið samið um ástina í gegnum tíðina

Tónlist

„Við erum allir áhugamenn um vesen“