Julia segir stöðu hinsegin fólks hafa versnað í stjórnartíð stjórnmálaflokksins Laga og réttar. Flokkurinn er þjóðernissinnaður hægri flokkur sem komst til valda 2015 og náði þá hreinum meirihluta á þinginu. Hann vann svo aftur stórsigur í kosningnum sem fóru fram 13. október. Bæði ríkisstjórnin og forsetaembættið eru höndum flokksins.
Óttast að ofbeldi verði að fjöldamorði
Í kosningum til Evrópuþingsins í maí og þingkosningunum nú í október setti Lög og réttur réttindabaráttu hinsegin fólks í brennidepil. Julia segir að í kosningunum 2015 hafi það verið flóttafólk sem var ógnin við Pólland að mati flokksins en nú beinist spjótin að hinsegin fólki og það hafi haft gríðarleg áhrif. „Helsta breytingin á síðustu fjórum árum er ofbeldið. Það var sprengja, sem hjón báru, í síðustu göngunni okkar í Lublin. Ég var í Bialystock og við héldum að við kæmumst ekki lifandi frá því. Gangan var grýtt, blysum var hent í okkur. Sjálfboðaliði hjá mér fékk blys í andlitið og brenndist illa alveg niður á háls.“