Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Hitler vissi hvað ætti að gera við ykkur“

26.10.2019 - 11:36
Erlent · Pólland · Evrópa
Mynd: Óskar Þór Nikulásson / RÚV
Það er hægt að lifa við hatursorðræðu og svívirðingar en ekki líkamlegt ofbeldi, segir Julia Maciocha formaður samtaka sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks í Póllandi. Hún segir stöðu hinsegin fólks í Póllandi alltaf hafa verið slæma en hún hafi versnað til muna síðustu ár.

Julia segir stöðu hinsegin fólks hafa versnað í stjórnartíð stjórnmálaflokksins Laga og réttar. Flokkurinn er þjóðernissinnaður hægri flokkur sem komst til valda 2015 og náði þá hreinum meirihluta á þinginu. Hann vann svo aftur stórsigur í kosningnum sem fóru fram 13. október. Bæði ríkisstjórnin og forsetaembættið eru höndum flokksins. 

Óttast að ofbeldi verði að fjöldamorði

Í kosningum til Evrópuþingsins í maí og þingkosningunum nú í október setti Lög og réttur réttindabaráttu hinsegin fólks í brennidepil. Julia segir að í kosningunum 2015 hafi það verið flóttafólk sem var ógnin við Pólland að mati flokksins en nú beinist spjótin að hinsegin fólki og það hafi haft gríðarleg áhrif.  „Helsta breytingin á síðustu fjórum árum er ofbeldið. Það var sprengja, sem hjón báru, í síðustu göngunni okkar í Lublin. Ég var í Bialystock og við héldum að við kæmumst ekki lifandi frá því. Gangan var grýtt, blysum var hent í okkur. Sjálfboðaliði hjá mér fékk blys í andlitið og brenndist illa alveg niður á háls.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi fólks mætir iðulega til að mótmæla jafréttisgöngu hinsegin fólks.

Julia segir að þau hafi getað lifað við það þegar fólk hrópi að þeim að þau séu sjúk eða barnaníðingar. „En eftir Bialystock finnst mér þetta ekki vera orðin tóm lengur. Þetta eru gjörðir. Þetta er líkamlegt ofbeldi, eiginlegt ofbeldi og ég held að við séum á síðasta snúning. Stjórnarflokkurinn getur beðist afsökunar og breytt stefnunni en það verður ekki gert held ég. Stjórnvöld geta líka farið lengra í hina áttina og þá gætu fjöldamorð verið framin hér í Póllandi.“  

„Innrás“ hinsegin fólks í Pólland

Þann 11. október, tveimur dögum fyrir þingkosningarnar ákvað pólska ríkissjónvarpið sýna umdeilda mynd. Ríkisfjölmiðlar í Póllandi eru sjaldan gagnrýnir á stjórnvöld og draga í raun taum flokksins. Myndin sem var sýnd ber heitið „Innrás“ og er sögð sýna sannleikann á bak við réttindabaráttu hinsegin fólks.  „Ég held að það skipti minna máli að hún var sýnd um sama leyti og kosningarnar. Það skiptir meira máli að hún var rétt á eftir afar vinsælum fótboltaleik. Þannig að allir sem horfðu á leikinn voru enn með kveikt á sjónvarpinu,“ segir Julia.

Um innihald myndarinnar segir hún: „Þeir sögðu bara aftur það sama, að við værum barnaníðingar sem vildum ræna börnum, og nauðga þeim, þeir breiða út fréttir um að 70% hinsegin fólks sem ættleiði börn nauðgi þeim eða áreiti þau kynferðislega. Þetta er sárt fyrir okkur en líka fjölskyldur okkar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Julia í einni jafréttisgöngunni í sumar.

Fær ítrekað líflátshótanir en gefst ekki upp

Julia fær ítrekað yfir sig hatursfull ummæli á samfélagsmiðlum, jafnvel líflátshótanir. „Fólk er auðvitað kjarkaðra á samfélagsmiðlum og það er auðveldara að hóta manni lífláti þar eða segja að Hitler hafi vitað hvað skyldi gera við mína líka. Ég hef ekki enn hitt neinn sem þorir að segja þetta við mig í eigin persónu en ég bý líka í Varsjá sem veitir mér mikil forréttindi. Það versta núna snertir börnin, það er að segja táninga sem koma út úr skápnum í smáþorpum og litlum borgum og heyra svona bull, bæði frá jafnöldrum sínum og foreldrum. Í Póllandi samþykkir aðeins fjórðungur mæðra hinsegin börnin sín. Hjá ferðum eru það aðeins 16%. Þannig að það er fullt af fólki, meirihluti hinsegin fólks, sem gengur um án stuðnings frá því fólki sem ætti að elska það skilyrðislaust,“ segir Julia. 

Það er ljóslega ekki auðvelt starf að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks í Póllandi. Julia segist samt ekki ætla að gefast upp. „Nei,“ segir hún ákveðin og hlær. „Ég held að stærsta vandamál þessarar ríkisstjórnar sé að ég fæddist afskaplega þrjósk. Ég er ekki hugrökk. Mér líður stöðugt eins og allt sé að hrynja, allt sé að hrynja beint ofan á okkur. En við höfum gott teymi hjá Jafnréttisgöngunni og okkur líður eins og að einn daginn fáum við eða börnin okkar einhverju áorkað.“

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV