Hitinn fer yfir 30 gráður í Skandinavíu

26.07.2019 - 10:15
epa07739950 A life guard looks over the beach at Blokhus packed with visitors enjoying the water of the North Sea around the red and white tower of the life guards, in Blokhus, North Jutland, Denmark, 25 July 2019.  EPA-EFE/Henning Bagger  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Hitabylgjan í Evrópu nær alla leið til Skandínavíu. Á vef norska ríkisútvarpsins má sjá að í Stafangri í Noregi fór hitinn upp í 29 gráður í morgun og er gert ráð fyrir að hann fari yfir 30 gráður víða í Suður-Noregi þegar líður á daginn. Þó er ekki búist við því að met frá því í fyrra, þegar hitinn fór upp í 34 gráður, verði slegið. Gert er ráð fyrir að það verði jafnframt heitt í norðurhluta Noregs, en þó ekki jafn heitt og á suðurhluta landsins.

Hitinn hefur jafnframt farið yfir 30 gráður í Danmörku og hæst mældist hann tæpar 33 gráður á Vestur Jótlandi í gær. Áfram má búast við heitu veðri í dag. Það hefur verið gríðarlega heitt á meginlandi Evrópu undanfarna daga. Í Belgíu fór hitinn upp í tæpar 39 gráður og var hitamet frá 1947 fellt. Í Hollandi fór hitinn yfir 39 gráður.

Heitasti dagur á Bretlandi í sögu mælinga var í gær og hefur hitabylgjan þar valdið truflunum á samgöngum; í flugi og lestarsamgöngum og fréttastofa sky sjónvarpsstöðvarinnar segir að mikið álag sé á heilbrigðisstarfsfólki sem hefur varla undan við að færa sjúklingum vökva.

Í Noregi hefur fólk stytt sér stundir við að elda mat í bíl undir sólarljósinu, eins og sjá má á þessari frétt. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi