Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hiti á fjölmennum starfsmannafundi RÚV

28.11.2013 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Hiti var á fjölmennum starfsmannafundi á RÚV fyrir hádegi vegna fjöldauppsagna í gær. Útvarpsstjóri segir ljóst að stjórnvöld hafi ákveðið að minnka stofnunina um fjórðung til frambúðar.

Páll Magnússon ræddi við starfsfólk í morgun um niðurskurð þann sem ráðist var í í gær. Þá var 39 sagt upp en starfsfólki verður fækkað um 60. Það er fimmtungur starfsfólks.

Páll segir að aðgerðin hafi verið óhjákvæmileg. Ekki hefði verið hægt að fresta lögbundnum fjárfestingum eða spara lengur í tækjakaupum eins og undanfarin ár. Spurningin sé nú hvort skera þurfi meira niður en Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafi lýst því yfir að hann vilji skera meira niður sem nemur um 215 milljónum. „Það fylgir þeirri tillögu að mínútufjöldanum sem við megum auglýsa á klukkutíma fjölgar úr átta í tólf. Það myndi skila okkur um það bil 80 milljónum í viðbótartekjur. Þannig að nettóskerðing til viðbótar þeirri sem við erum nú að bregðast við yrði samkvæmt þessum tillögum um 135 milljónir sem bætast við þær 500 milljónir sem nú þegar er byrjað að taka á“, segir Páll. 

„Nú er ekki lengur ljós við endann á göngunum“

Mikil óánægja var á starfsmannafundinum með forgangsröðun stjórnenda, mjög mikið var skorið niður á Rás 1 og er þar mikil ólga. Þá er einnig skorið mjög niður í Kastljósi. Páll segir að aðgerðir síðustu þriggja ríkisstjórna hafi skilað því að Rúv verði til frambúðar nærri fjórðungi minna en árið 2009. „Þetta félag, Ríkisútvarpið, það minnkar um á bilinu 20-25% frá því sem það var á árinu 2009. Nú er ekki lengur ljós við endann á göngunum, nú segja stjórnvöld ekki að það komi sá dagur að við fáum þetta útvarpsgjald óskert, það er að segja við eigum að fá það óskert frá 1. janúar 2016 en það fylgir með að þá verði búið að lækka það um 500 milljónir. Þannig að til allrar fyrirsjáanlegar frambúðar þá felur þetta í sér að ríkisútvarpið er 20-25% minna og snauðara en það var árið 2009.“