
Í rannsókn Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum við HÍ, Thors Aspelund, prófessors við Læknadeild og Vilhjálms Rafnssonar, prófessors emeritus við Læknadeild, benda niðurstöður til að krabbameinstíðni væri hærri á umræddum svæðum en á volgum og köldum samanburðarsvæðum.
Gagnrýni Ólafs og Helga snýr að aðferðarfræði rannsóknarinnar. Bent er á ósamræmi í vali á háhitasvæðum og að finna megi aðrar þekktar skýringar á aukinni tíðni tiltekinna krabbameina. Þá benda þeir á að ef notkun á hitaveituvatni yki áhættuna á að fá krabbamein þá mætti búast við að nýgengi krabbameina væri hærra á Íslandi en í grannlöndunum, þar sem um 90 prósent landsmanna hafa hitaveitu hér á landi. Svo er ekki.
Krabbameinsáhættan er áþekk á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, bæði fyrir öll krabbamein og þau einstöku krabbamein sem tiltekin eru í rannsóknum Aðalbjargar, Thors og Vilhjálms.