Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hitaveituvatn eykur ekki áhættu á krabbameini

01.06.2016 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og Helgi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í krabbameinslækningum við HÍ, gagnrýna niðurstöðu rannsókna um tengsl á milli tíðni krabbameina og lengdar búsetu í sveitarfélögum sem nota jarðhitavatn á Íslandi og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.

Í rannsókn Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum við HÍ, Thors Aspelund, prófessors við Læknadeild og Vilhjálms Rafnssonar, prófessors emeritus við Læknadeild, benda niðurstöður til að krabbameinstíðni væri hærri á umræddum svæðum en á volgum og köldum samanburðarsvæðum. 

Gagnrýni Ólafs og Helga snýr að aðferðarfræði rannsóknarinnar. Bent er á ósamræmi í vali á háhitasvæðum og að finna megi aðrar þekktar skýringar á aukinni tíðni tiltekinna krabbameina. Þá benda þeir á að ef notkun á hitaveituvatni yki áhættuna á að fá krabbamein þá mætti búast við að nýgengi krabbameina væri hærra á Íslandi en í grannlöndunum, þar sem um 90 prósent landsmanna hafa  hitaveitu hér á landi. Svo er ekki.

Krabbameinsáhættan er áþekk á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, bæði fyrir öll krabbamein og þau einstöku krabbamein sem tiltekin eru í rannsóknum Aðalbjargar, Thors og Vilhjálms.

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV