Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hirðingjalíferni kvíðins pönkara

Mynd með færslu
 Mynd: Brett Newski - Youtube

Hirðingjalíferni kvíðins pönkara

01.11.2019 - 13:29

Höfundar

Brett Newski hefur troðið upp útum allan heim og kemur nú fram á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni sem er haldin 6.-9. nóvember. Poppland heldur áfram daglegri umfjöllun sinni um listamenn á hátíðinni og í dag er það bandarískur tónlistarhirðingi.

Alternatíviski rokkarinn Brett Newski kemur fram hér á landi í fyrsta sinn. Þessi tónlistarmaður, lagahöfundur, myndskreytir og pönkgítarleikari frá Milwaukee, Wisconsin hefur tileinkað sér eins konar hirðingjalífstíl. 

Árið 2011 ferðaðist hann einn um Suðaustur-Asíu í sex mánuði og lauk sinni fyrstu smáskífu, In Between Exits, á meðan á ferðalaginu stóð. Lagið var skrifað og tekið upp á farfuglaheimilum og í íbúðum víðs vegar um Tæland, Víetnam, Hong Kong, Kóreu og á Filippseyjum. Tónleikaferðalagið hlaut nafnið „Heimilislaus í Asíu-túrinn“ en Newski lauk 30 tónleikum á óhefðbundnum stöðum þar á meðal sófaskipta (e. couchsurfer) -íbúðum, víetnömskum sjoppum, neðanjarðar plötubúð í Kóreu og ofan á íbúðarþaki í Hong Kong. Brett gerði sína fyrstu plötu, American Folk Armageddon í hinni seiðandi borg Saigon í Víetnam. Sú plata náði langt í neðanjarðarsenunni og kom honum á endanum á tónleikaferðalag með Violent Femmes og fjallað var um hann í tónlistartímaritinu Rolling Stones. 

Brett Newski og hljómsveit hans The No Tomorrow vöktu athygli fyrir skemmstu þegar þeir héldu ólöglega tónleika í Wal-Mart verslun og var svo hent út. Hljómsveitin er þannig þekkt sem sú fyrsta sem hefur verið sparkað út úr Wal-Mart fyrir að halda ólöglega tónleika. 

Hans nýjasta breiðskífa Life Upside Down kom út í fyrra og er mjög tilfinninganæm þar sem hann tekur fyrir málefni á borð við kvíða en hann hefur glímt við alls kyns geðræn vandamál sjálfur. Brett Newski hefur verið að grafa ofan í sálina sína, túrað óendanlega mikið, aðallega einn, og spekúlerað um kvíða, þunglyndi og sjálfsefa. Öll þessi neikvæðni hefur blómstrað í jákvæða, skapanda orku á þessari þriðju breiðskífu hans. 

„Kvíði getur verið góður hlutur. Ef þú notar hann rétt er hægt að beina þeirri taugarorku í hvatningu eða sköpunargáfu,“ útskýrir Newski í viðtali við 88Nine. „Jafnvel fólk sem virðist sjálfsöruggast hefur efast um sjálfan sig.“

Life Upside Down minnir um margt á tónlist frá níunda áratugnum. Newski segir fyrstu áhrifavalda hans hafa verið Weezer, Green Day, Gin Blossoms og Better Than Ezra. Nýlegri áhrifavaldar hans eru Nada Surf, Frank Turner, New Pornographers og Delta Spirit.

Brett Newski kemur fram á Kex Hostel fimmtudaginn 7. nóvember og á Dillon föstudaginn 8. nóvember kl. 19.

Tengdar fréttir

Airwaves

„Það snerist allt um það að við værum svartir"

Tónlist

Fótboltakona fetaði í fótspor Missy Elliott

Tónlist

Fundu teknóið og urðu ástfangnir