Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hinsegin fólk alltaf að koma út úr skápnum

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir

Hinsegin fólk alltaf að koma út úr skápnum

02.10.2019 - 14:38

Höfundar

Að hlusta vel og gúgla eru meðal helstu ráða til foreldra eða aðstandenda þegar börn þeirra koma út úr skápnum sem hinsegin. Þetta segja Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, sálfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökunum '78, og Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar.

Þær ætla að fjalla um samskipti foreldra við hinsegin börn í erindi í Norræna húsinu síðdegis. „Ég ætla að fjalla um tvennt; annað snýr að aðstandendum. Ef að barnið þitt kemur út úr skápnum og notar hugtök sem þú skilur ekki er þarftu að uppfræða þig, til dæmis gúgla,“ sagði Aldís Þorbjörg í Morgunútvarpinu. Þá bjóði Samtökin '78 upp á ráðgjöf fyrir aðstandendur og hún hvetji fólk til að nýta sér hana. „Og líka bara tengjast samfélaginu, kynnast öðrum foreldrum sem eiga hinsegin börn. Það er allt í lagi að þekkja ekki allt, við viljum bara styðja foreldrið í þessu samtali. Svo er náttúrulega mjög mikilvægt að barnið finni fyrir stuðningi.“

Þá sé mikilvægt að sýna að það sé í lagi fyrir unglinga að fá tíma til að átta sig á eigin sjálfsmynd og kynhneigð. „Það er margt að breytast, til dæmis líkaminn á þessum aldri. Það er allt í lagi að máta eitthvað, og svo má líka alveg skipta um skoðun,“ segir Aldís. Undanfarið hefur hinsegin flóran stækkað mjög mikið og sumir af eldri kynsóðum eiga erfitt með að skilja þessar nýju hneigðir og kyn. „Þau eru að koma út meira í dag sem pan-kynhneigð, að laðast að persónu en ekki kyni. Svo með kynvitundina þá eru krakkar í auknum mæli að skilgreina sig með flæðandi kynvitund, hún breytist. Þetta er eitthvað sem ekki allir foreldrar skilja.“

Hrefna Þórarinsdóttir forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar segir það misjafn hvort unglingunum finnist foreldrarnir skilja þau. „Maður skilur alveg að foreldrarnir geti ekki alveg mátað sig í þennan raunveruleika. En besta ráð sem ég get gefið foreldrunum er að hlusta og trúa þeim. Eitt af betri ráðunum er líka að gúgla.“ Hún heyri stundum frá krökkunum að foreldrarnir haldi að þau sé ekki nógu gömul og þetta sé tímabil sem gangi yfir. Í fyrsta hluta þáttaraðarinnar Svona fólk sem nú er sýnd á RÚV er lýst mikilli skömm og reiði þegar fólk kom út úr skápnum á Íslandi á 8. áratugnum. Aldís segir að þrátt fyrir að mjög margt hafi breyst örli enn á þessu. „Skömm, inngrónir fordómar og þessi togstreita. Það tekur á að koma út úr skápnum. Og hinsegin fólk er alltaf að koma út úr skápnum; nýjum vinnustað, nýjum vinahóp og nýju umhverfi.“

Þá sýni rannsóknir að hinsegin ungmenni þjást af meiri vanlíðan en gagnkynhneigð. „Við erum að sjá meiri kvíða, þunglyndi, sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir,“ segir Aldís. Hrefna segir að Hinsegin félagsmiðstöðin skipti sköpum fyrir hinsegin ungmenni því þau hitti þar aðra og spegli sig. „Mörg þeirra eru bara ein í skólanum allan daginn. Svo þegar þau koma í félagsmiðstöðina og Samtökin '78, þá eru þau farin að tilheyra hóp, þau eru ekki frávik.“ Krakkarnir sem fara þangað eru á aldrinum 13-17 ára og er sífellt að fjölga. „Við slógum mætingamet í gærkvöldi, það komu 80. Þetta er ofboðslega fjölmennur og afskaplega fallegur hópur sem er að koma til okkar.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir og Sigmar Guðmundsson ræddu við Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur og Hrefnu Þórarinsdóttur í Morgunútvarpinu. Myndina í haus færslu tók Gunnhildur Arna.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Tók langan tíma að líða vel í eigin skinni“

Jafnréttismál

Enn margt ógert í málefnum transfólks

Hinsegin mýtur verða oft til í hugum fólks

Tónlist

Sjö pottþéttir hinsegin popparar