
Hinsegin Austurland stofnað á morgun
Félög hinsegin fólks starfa bæði á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi. Hinsegin Austurland á að vera vettvangur fyrir hinsegin fólk, fjölskyldur þeirra og vini í heimabyggð. „Það er ekkert öllum greið leið að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur þar sem Samtökin 78 eru staðsett. Að fyrirmynd Norðlendinga sem eiga hinsegin félag á Akureyri þá ákváðum við að slá til og stofna félag hér fyrir austan,“ segir Jódís Skúladóttir er einn af stofnfélögunum.
Hafði engar fyrirmyndir og engan stað að leita á
Félagið á að fræða og svara spurningum ekki síst frá ungu fólki sem er að uppgötva kynhneigð sína eða fellur ekki inn í hefðbundin kyn eða kynhlutverk. Hún segir að ungt hinsegin fólk þurfi aðstoð og félagsskap. „Ég á sjálf þá reynslu að uppgötva mína kynhneigð mjög ung og vera búsett hér, hafandi engar fyrirmyndir og í rauninni engan stað að leita á og þessu viljum við breyta. Samfélagið er auðvitað gjörbreytt frá því sem áður var, miklu opnara og viðurkenning á því að við séum ekki öll nákvæmlega eins og steypt í sama mót er auðvitað miklu meira til staðar í dag en það var. En það breytir því ekki að þetta er oft hálf einmanalegt ferli. Við þurfum að fara í gegnum mikla sjálfsrannsókn og þá er bara svo mikilvægt að hafa þennan stað að leita á,“ segir Jódís.
Hátíð með dragkeppni og balli á morgun
Hún segir að draumurinn sé að opna skrifstofu en þangað til muni Hinsegin Austurland halda fundi reglulega um allan fjórðunginn. Stofnfundurinn verður í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan þrjú á morgun, laugardag. Klukkan 20 um kvöldið verður dragkeppni í boði Hinsegin félags Menntaskólans á Egilsstöðum og klukkan 23 hefst Pallaball. „Félagið hinsegin Austurland er ekki bara fyrir hinsegin fólk heldur alla vini ættingja og bara velunnara. Okkar vandi í dag er ekki endilega að mæta miklum fordómum heldur er það ákveðin jaðarsetning og að vera svolítið ósýnileg. Þannig að nú óskum við eftir því að fólk sýni stuðning í verki og mæti og leggi okkur lið,“ segir Jódís.