Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hillir undir lok íslenskrar frímerkjaútgáfu

21.08.2019 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Síðustu íslensku frímerkin kunna að líta dagsins ljós eftir tvö ár. Mikið tap hefur verið á frímerkjaútgáfu Íslandspósts undanfarið. Pósturinn hættir þjónustu við frímerkjasafnara um áramót vegna mikils tap. Safnarar hafa verið helstu kaupendur að nýjum frímerkjum.

Starfsmenn Frímerkjasölunnar voru meðal þeirra sem fengu uppsagnarbréf í fjöldauppsögnum Íslandspósts í gær. Frímerkjasalan hefur þjónustað frímerkjasafnara um allan heim.

„Íslandspóstur hefur rekið mjög metnaðarfulla starfsemi og frímerkjaútgáfu í áratugi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts. „Nú eru aðstæður þannig í rekstrarumhverfi fyrirtækisins og á rekstri fyrirtækisins að okkur er ekki stætt á að halda þessari útgáfu áfram. Við höfum tapað tugum milljóna á hverju ári á þessari starfsemi. Þetta er hluti af hagræðingaraðgerðum sem við erum í. Við verðum því miður að skera þarna niður eins og annars staðar.“

Safnarar helstu kaupendur nýrra frímerkja

Kaup safnara hafa ekki aðeins orðið til þess íslensk frímerki hafa borist víða um heim. Þau kaup hafa verið undirstaðan í sölu nýrra frímerkja síðustu ár, segir Birgir. „Þetta snýst aðallega um þessa nýútgáfu á frímerkjum sem hefur fyrst og fremst skapað tekjur með sölu til safnara út um allan heim.“ Þær tekjur hafa dregist mjög saman síðustu ár. 

Útgáfa nýrra frímerkja er undirbúin langt fram í tímann. Henni verður haldið áfram á næsta ári og eitthvað fram á þarnæsta ár. „En síðan mun þessi starfsemi stöðvast. Hins vegar eigum við auðvitað lager af frímerkjum sem mun endast okkur í mörg ár og jafnvel þangað til síðasta bréfið verður sent,“ segir Birgir. Hann tekur fram að ef frímerkjabirgðir Íslandspósts klárast áður en síðustu bréf og póstkort eru send sé þó hægt að prenta ný til að bregðast við því.

Til í viðræður ef frímerkin teljast menningarlega mikilvæg

Einkaréttur Íslandspósts á bréfum fellur niður um áramót. Fyrirtækið vinnur að þjónustusamningi við ríkið. Stjórnendur Póstsins segjast reiðubúnir að gefa út frímerki áfram ef stjórnvöld telja það menningarlega mikilvægt. Þá verði hins vegar að semja um hvernig sá kostnaður sé greiddur.