Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hillary Clinton hafi stuðning Íslendinga

epa05202081 US Democratic presidential candidate Hillary Clinton speaks during a campaign rally at the Cuyahoga Community College Metropolitan Campus in Cleveland, Ohio, USA, 08 March 2016. The Ohio presidential primary election will be held on 15 March.
 Mynd: EPA
Hillary Clinton höfðar helst til íslenskra kjósenda, af þeim sem nú keppast um að hljóta útnefningu síns flokks fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Tæplega 53 prósent Íslendinga segjast myndu kjósa hana til embættis forseta Bandaríkjanna hefðu þeir til þess kosningarétt. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu.

Rúmlega 38 prósent segjast myndu greiða Bernie Sanders sitt atkvæði.

Frambjóðendur í forvali Repúblikanaflokksins virðast, miðað við könnunina, síður höfða til íslenskra kjósenda. Af þeim fær Donald Trump mestan stuðning, en þó ekki nema milli fjögurra til fimm prósenta fylgi. Ted Cruz fær stuðning 1,5 prósenta og Marco Rubio 1,2 prósent. Aðrir mælast með undir prósents fylgi. 

Samkvæmt könnun Maskínu reyndust konur, þeir sem lokið hafa grunnskólaprófi sem og elsti hópurinn líklegri en aðrir til að kjósa Hillary Clinton. Bernie Sanders reyndist hinsvegar líklegri til að hafa fylgi íslenskra karla, þeirra sem lokið hafa háskólaprófi og yngsta aldurshópsins.  

Könnunin var gerð 3. til 9. mars. Svarendur í könnuninni voru 857 manns úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 til 75 ára. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV