Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hildur hlaut Golden Globe fyrir Joker

epa08106598 Icelandic musician Hildur Guonadottir holds the award for Best Original Score - Motion Picture for 'Joker' in the press room during the 77th annual Golden Globe Awards ceremony at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California, USA, 05 January 2020.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: EPA - RÚV

Hildur hlaut Golden Globe fyrir Joker

06.01.2020 - 03:29

Höfundar

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn í nótt þegar hún tók við Golden Globe verðlaununum fyrir tónlistina í kvikmyndinni um varmennið Joker. Hún þakkaði samstarfsmönnum og fjölskyldu sinni. Að lokum þakkaði hún syni sínum Kára og lauk þakkarræðunni á orðunum: „Þessi er fyrir þig.“

Hildur er hlaðin verðlaunum fyrir tónlistina í Joker og getur enn bætt fleiri við. Hún er tilnefnd til Critics Choice verðlaunanna, og er enn meðal þeirra sem geta hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna. Hildur er aðeins önnur konan til að hljóta Golden Globe verðlaunin fyrir frumsamda kvikmyndatónlist. Lisa Gerrard hlaut þau ásamt Hans Zimmer fyrir tónlistina í Gladiator árið 2000. Hildur er einnig annar Íslendingurinn til að hljóta verðlaunin, en Jóhann Jóhannsson hlaut þau fyrir tónlistina í The Theory of Everything árið 2014. 

Þetta urðu ekki einu verðlaunin sem Joker hlaut, því Joaquin Phoenix var verðlaunaður fyrir titilhlutverkið. 

Nýjasta kvikmynd Quentin Tarantino, Once upon a time ... in Hollywood, hampaði þrennum verðlaunum. Sjálfur hlaut Tarantino verðlaun fyrir handrit sitt að myndinni, Brad Pitt þótti framúrskarandi í aukahlutverki og myndin var valin sú besta meðal gaman- og tónlistarmynda. Leonardo di Caprio varð að lúta í lægra haldi fyrir Taron Egerton, sem hlaut styttuna fyrir túlkun sína á Elton John í kvikmyndinni Rocketman.

Elton John sjálfur fór heldur ekki tómhentur heim. Hann fékk Golden Globe verðlaun fyrir lagið I'm Gonna Love Me Again sem hann samdi fyrir Rocketman. Samstarfsmaður hans til áraraða, Brian Taupin, samdi textann við lagið og tjáði Elton John áhorfendum að þetta væri í fyrsta sinn sem þeir hafi hlotið verðlaun saman.

Fyrri heimsstyrjaldardrama best

Í flokki dramakvikmynda var 1917 valin best, og Sam Mendes hlaut einnig verðlaun fyrir leikstjórn sína. Hann minnti áhorfendur á að fara að sjá myndina í kvikmyndahúsum, en meðal kvikmynda sem voru í sama flokki voru myndir frá streymisveitum á borð við Netflix.

Renee Zellweger var valin besta leikkonan í dramakvikmynd fyrir túlkun sína á Judy Garland í kvikmyndinni Judy. Besta leikkonan í gaman- eða tónlistarmynd var Awkwafina fyrir myndina The Farewell. Þá þótti Laura Dern skara fram úr meðal kvenna í aukahlutverki sem skilnaðarlögfræðingur í kvikmyndinni Marriage Story.

Sjónvarpið

Sjónvarpsþáttaröðin Succession var valin sú besta í drama flokknum, og Brian Cox þótti skara fram úr í aðalhlutverki þáttanna. Svipað var uppi á teningnum í flokki gaman- og tónlistarþáttaraða þar sem leikkonan Phoebe Waller-Bridge hlaut verðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverki í Fleabag, sem var jafnframt valin besta þáttaröðin í þeim flokki. Olivia Colman þótti skara fram úr meðal leikkvenna í dramaþáttaröðum fyrir hlutverk sitt sem Elísabet Bretadrottning í The Crown og Ramy Yousseff var valinn besti leikari í aðalhlutverki gaman- og tónlistarþáttaraða í þáttum sem nefndir eru eftir honum, Ramy.

Þáttaröðin um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl var valin sú besta í flokki stakra þáttaraða og sjónvarpsmynda, en Hildur Guðnadóttir semur einnig tónlistina í henni. Svíinn Stellan Skarsgård hlaut verðlaun fyrir leik sinn í aukahlutverki þáttanna. Russell Crowe var valinn besti aðalleikarinn í þessum flokki fyrir hlutverk sitt í The Loudest Voice, sem fjallar um Roger Ailes, fyrrverandi stjórnanda Fox sjónvarpsfréttastofunnar. Michelle Williams þótti besta leikkonan fyrir þáttaröðina Fosse/Verdon og Patricia Arquette hlaut verðlaun fyrir aukahlutverk sitt í The Act.

Kvikmyndin Parasite hlaut verðlaun sem besta kvikmynd á öðru tungumáli en ensku, og Týndi hlekkurinn var valin besta teiknimyndin.