Meðal annarra sem voru tilnefndir fyrir kvikmyndatónlist voru Thomas Newman fyrir stríðsmyndina 1917 og gamli Band-leiðtoginn Robbie Robertsson sem lengi hefur unnið með Martin Scorsese og samdi tónlistina fyrir Irishman. Joaquin Phoenix fór heim með verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki sem Jókerinn og Rene Zellweger var valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir ævisögulegu myndina Judy sem fjallar um Judy Garland. Óður Quentins Tarantinos til kvikmyndaborgarinnar, Once Upon A Time in Hollywood, var valin besta kvikmyndin auk þess sem Brad Pitt var verðlaunaður fyrir bestan leik í aukahlutverki í sömu mynd.
Hildur Guðnadóttir hefur átt mjög góðu gengi að fagna á þessu ári, fyrst fyrir tónlistina úr sjónvarpsþáttunum um Tsjernobýl sem skilaði henni meðal annars Emmy-verðlaunum og Grammy-tilnefningu og undanfarið hefur verðlaunum og tilnefningum verið hlaðið á tónlisti hennar fyrir Joker. Hún hefur meðal annars skilað henni Golden Globe og Sattellite-verðlaunum og tilnefningu til BAFTA-verðlauna. Hún er þegar komin á stuttlista yfir 15 kvikmyndatónskáld sem hafa möguleika á því að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna. Golden Globe-verðlaunin eru oft talin góður fyrirboði um það sem koma skal í Óskarnum svo fyrst Hildur fór heim með styttuna þar má telja líklegt að hún verði í það minnsta tilnefnd af bandarísku kvikmyndaakademíunni.