Hildur Guðnadóttir með „sjö fingur“ á Óskarsstyttunni

epa08188414 Hildur Gudnadottir attends the 73rd annual British Academy Film Award at the Royal Albert Hall in London, Britain, 02 February 2020. The ceremony is hosted by the British Academy of Film and Television Arts (BAFTA).  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV

Hildur Guðnadóttir með „sjö fingur“ á Óskarsstyttunni

03.02.2020 - 08:18

Höfundar

Hildur Guðnadóttir vann í gærkvöld bresku Bafta-verðlaunin fyrir tónlistina sína við kvikmyndina Joker. Þetta eru önnur stóru verðlaunin sem Hildur fær fyrir þetta verk sitt en hún vann einnig til verðlauna á Golden Globe í síðsta mánuði. Segja má að Hildur sé komin með „sjö fingur“ á Óskarsstyttunni.

Óhætt er að segja að Hildur hafi tekið stóru verðlaunahátíðirnar með trompi síðustu mánuði - hún er þegar búin að vinna Grammy og Emmy fyrir sjónvarpsþáttaröðina Chernobyl og hirðir nú hver verðlaunin af öðrum fyrir Joker, í gærkvöld voru það hin bresku Bafta-verðlaun.

Eins og sjá má í þessu myndskeiði var henni vel fagnað og hún fékk koss á kinnina frá Todd Phillips, leikstjóra Joker. „Ég held að enskir tengdaforeldrar mínir séu býsna ánægðir með þetta,“ sagði Hildur þegar hún tók á móti verðlaununum. 

Óskarsverðlaunin verða síðan afhent eftir viku og  verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir hefur Íslendingi aldrei tekist að hreppa þá ágætu styttu. 

Hildur virðist í nokkuð góðri stöðu og hún fengið mikla athygli fjölmiðla, prýddi meðal annars forsíðu hins virta Variety í síðustu viku. Síðustu tíu ár hefur það gerst sjö sinnum að sama tónskáld vinnur bæði Bafta og Óskarinn.

Fimm sinnum  hefur sama verk hlotið öll verðlaunin þrjú - Óskar, Bafta og Golden Globe.

  • 2018 - Shape of Water
  • 2017 - Lala Land
  • 2016 - The Hateful Eight
  • 2012 - The Artist
  • 2010 - Up

Hinar myndirnar tvær sem hlutu bæði Óskar og Bafta en ekki Golden Globe

  • 2015 - The Grand Budapest Hotel*
  • 2014 - Gravity

Í fyrra voru hátíðirnar ákaflega ósammála - Black Panther hlaut Óskarinn, A Star is Born vann Bafta en kvikmyndin First Man fékk Golden Globe.

Það er því ekki skrýtið að 23 sérfræðingar af 28 hjá vefsíðunni Gold Derby, sem sérhæfir sig í spádómum fyrir verðlaunahátíðirnar, skuli spá Hildi sigri á Óskarnum. Fjórir segja að tónskáldið Thomas Newman standi uppi sem sigurvegari fyrir 1917 og einn spáir tónlistinni í Marriage Story sigri. 

*Þetta ár hlaut Jóhann Jóhannsson Golden Globe fyrir kvikmyndina The Theory of Everything. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hildur vann BAFTA verðlaunin

Tónlist

Hildur Guðnadóttir í fríðu föruneyti Óskarsbiðla

Tónlist

Hildur líklegust til að vinna Grammy og Óskar

Tónlist

Hildur Guðnadóttir: „Ég er ekki alveg búin að átta mig“