Hildur Guðnadóttir: „Ég er ekki alveg búin að átta mig“

Mynd: EPA / EPA

Hildur Guðnadóttir: „Ég er ekki alveg búin að átta mig“

13.01.2020 - 20:19

Höfundar

Hildur Guðnadóttir tónskáld, sem tilnefnd hefur verið til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker, segist ekki alveg vera búin að átta sig á tíðindunum. Þetta sé hins vegar ótrúlegur heiður, en um leið súrrealískt.

Hildur er annar Íslendingurinn sem er tilnefndur fyrir bestu tónlistina á Óskarsverðlaunahátíðinni. Jóhann Jóhannsson var tilnefndur fyrir tónlistina í myndinni The Theory of Everything árið 2015 og Sicario 2016. Joker fær flestar tilnefningar í ár, ellefu talsins, meðal annars sem besta myndin. Hildur þykir líkleg til að hreppa hnossið en hún hlaut Golden Globe-verðlaun um síðustu helgi.  

Hildur var að borða morgunmat á kaffihúsi í Los Angeles þegar fréttastofa náði tali af henni síðdegis í dag að íslenskum tíma. 

„Ég er bara svo nývöknuð og nýbúin að heyra fréttirnar þannig að ég er ekki alveg búin að átta mig á því sjálf ennþá. En þegar ég er búin að klára morgunmatinn hérna úti á götu, þá kannski skýrist það.“

Áttirðu von á þessu eftir velgengnina undanfarnar vikur og mánuði?

„Já, þannig séð. Fólk er mikið að veðja og leggja undir. Pabbi sagði mér að fólk væri að tala um að leggja undir íslensku fjárlögin,“ segir Hildur í léttum dúr. „Það er það sama hér, fólk er mikið að spá og hefur alveg talað um þetta. En maður veit náttúrulega aldrei fyrr en það gerist.“

Mynd: AP / AP
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Hildi.

Það eru engar smá kanónur tilnefndar með þér, til dæmis John Williams og Randy Newman, hvernig er að vera í þessum félagsskap?

„Það er bara frekar súrrealískt. Þetta eru allt menn sem hafa í rauninni skapað kvikmyndatónlistarformið sem það er í dag, og það er frekar súrrealískt að sjá nafnið mitt þarna með þeim, og ótrúlegur heiður.“

Fáar konur

Auk Óskarsverðlauna hefur Hildur verið tilnefnd til BAFTA og Grammy-verðlaunanna. Allar hátíðirnar verða haldnar á tveggja vikna tímabili og því getur Hildur unnið þrenn risaverðlaun á hálfum mánuði. Hún segir að þessi verðlaun og tilnefningar geti haft mikið að segja fyrir hennar feril.

„Alveg tvímælalaust. Það sem svona verðlaun hafa mest með að segja er traustið sem maður fær til þess að taka að sér þessi stærri verkefni, sem bransinn hefur verið ragari að treysta konum fyrir. Ég er kannski tónskáld sem fer frekar tilraunakenndari leiðir. Eins og með Chernobyl, þegar ég lagði upp með að  breyta kjarnorkuveri í hljóðfæri, það hljómar kannski frekar „scary“, þegar maður leggur það upp sem hugmynd. En allir þessir póstar gera það að verkum að maður fær meira traust til þess að leggja út í frekari tilraunastarfsemi, af því að það hefur verið staðfest að maður sé traustsins verður. Þannig að það hjálpar, sérstaklega fyrir mig, hvað það varðar.“ 

Hildur bendir á að aðeins um 1% kvikmyndatónskálda séu konur.

„Það hefur skapast umræða um það núna í vikunni, og það er frábært að vera hluti af þeirri umræðu, og að fá að benda á að þetta er ótrúleg skekkja, sem er bara svo furðuleg,“ segir Hildur.

„Þannig að það er búið að vera frábært að finna alla orkuna og stuðninginn og umræðuna sem hefur skapast, og hvað það er komin mikil orka til þess að opna þennan vettvang, og fyrir ungar konur að byrja að semja, og vera óhræddar við að halda út á þessa braut, sem er alveg frábært. Það er stærsti sigurinn, held ég. Og það er æðislegt að hafa verið hluti af því og alveg sama hvað gerist 9. febrúar, þá er þetta allt búið að vera algjört ævintýri hvað það varðar.“

Síminn hringir

Hildur segist ekki hafa tekið nein verkefni að sér á næstunni, önnur en að semja tónlist fyrir sýningu Ólafs Elíassonar í Zürich. 

„Það hefur gengið svolítið mikið á síðasta árið þannig að ég er að taka mér smá pláss til að hlaða batteríin.“

En er ekki hætt við að síminn fari mikið að hringja hjá þér?

„Jú, jú, hann hringir alveg stöðugt,“ segir Hildur og hlær. „Ég er ekkert stressuð að hlaupa í neitt. Ég hef alltaf gert hlutina frekar hægt og á mínum forsendum. Ég held að það hafi tekið mig þrjú ár að læra að hjóla. Þannig að ég hef reynt að gera þetta á mínum hraða og þótt það komi einhver sprengja núna held ég að ég  ætli ekki að láta það breyta neitt mínum hraða og ég fer bara í eitthvað þegar ég er tilbúin,“ segir Hildur.

Óskarsverðlaunin verða afhent níunda febrúar í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Getur unnið þrenn verðlaun á tæpum tveimur vikum

Kvikmyndir

Joker með flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Hver verða tilnefnd til Óskarsverðlauna?