Þriðja platan
Nú, fjórum árum síðar, kemur þriðja platan út. Fever Dream kallast hún og opnunarlagið, „Alligator“, styður við lætin sem ýjað er að í plötutitlinum. Þetta er grimmt og áleitið rokklag, gítarar þykkir og grófir og nokkuð djarft sem fyrsta útspil (lagið er líka fyrsta smáskífan). Tilkomumikið lag sem svínvirkar. En platan verður ekki rokkaðri en þetta. Næsta lag, „Ahay“ er meira eins og stef fremur en lag, flýtur værðarlega fram hjá. „Róróró“ er svo tilboð OMAM í hreint, kinnroðalaust popp. „Þetta hljómar eins og Dua Lipa?,“ sögðu unglingsdæturnar. Og sem slíkt, gengur lagið harla vel upp. „Waiting for the Snow“ er ballaða plötunnar og ég sé kveikjarana fyrir mér. Lágstemmt rennslið er nánast full mikið af því góða, lagið laumar sér hálfpartinn fram hjá manni. Þvínæst er hlaðið í „Vulture, Vulture“ og það er eins og bandið sé vaknað. Flottur, „eitís“-gítar, vel heppnaður samsöngur hjá Nönnu og Ragnari, sem er eitt sterkasta vopn OMAM. Sprengiviðlag og allt í gang, svona nokkuð gera OMAM vel. Lag sem mun verða heimagangur í útvarpi næstu mánuði, án efa. Við tekur svo undarleg þrenna, þar sem lítið er að frétta. „Wild Roses“, „Stuck in Gravity“ og „Sleepwalker“ eru bestu dæmin um helstu meinsemdir þessarar plötu. Einfaldlega veikar og óáhugaverðar lagasmíðar. „Wars“ kippir málum hins vegar hressilega í lag, pottþéttur smellur líkt og „Vulture, Vulture“. Plötunni er lokað með tveimur rólyndislögum sem eru sæmileg til þess að gera. „Under a Dome“ er drungalegt og eintóna á meðan „Soothsayer“ kveður með kurt, viðlagið í senn dulrænt og angistarfullt og hlustandanum leyft að hanga aðeins í óvissu undir blálokin.
Þetta var hrein lýsing á því hvernig platan rúllar. Eins og sést, á meðan fyrri plötur voru afar heilsteyptar, svo þéttar í framkvæmd að ekki komst vatn á milli, er Fever Dream það ekki. Og það er sök sér, þó að stíllega séu menn að flökta. Ekkert að því. Hér verið að brjóta upp formið, reyna sig við eitthvað nýtt, eitthvað sem allar hljómsveitir þurfa að gera á vissum tímapunkti (nema þú sért AC/DC). Það þarf vissa djörfung til og ég tek ofan fyrir því. En verra er með gæðaflöktið. Hér eru góðar lagasmíðar eins og ég nefni en líka alls ekki, eins og ég nefni sömuleiðis. Á meðan það besta hér er til vitnis um að OMAM býr yfir einhverju alveg sérstöku er það lakasta ekki mikið meira en dauft kaffihúsaveggfóður.
Sannfærandi?
En, hér er ég að dæma plötuna. Verkið. Breiðskífan gengur illa upp sem slík en hér er engu að síður nægilega mikið af efni til að halda sveitinni gangandi enn um sinn. Sterkar smáskífur prýða hana, ég furða mig reyndar á því að „Wild Roses“ hafi verið sett út sem slík, og hljómur hér, hljóðfærasláttur og frágangur er keppnis sem fyrr. Nanna Bryndís er þá frábær söngkona, og hún sýnir að hún getur sungið ólíka stíla með sannfærandi hætti. Ég fíla þetta band. Það hefur verið stemning í hópnum og ég hef fylgst andaktugur með árangrinum ytra, dáist hreinlega að því hvernig þau hafa haldið á spöðunum. Það álit mitt stendur óhaggað, þrátt fyrir þá misfellu sem Fever Dream óneitanlega er.