Heyrðu óp innan úr húsinu sem brann

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Sjúkraflutningamenn og fyrstu lögreglumenn sem komu að húsinu að Kirkjuvegi 18, þegar það brann í lok október, heyrðu hróp innan úr húsinu. Lögreglumennirnir segja hins vegar að það hafi verið ómögulegt að fara inn í húsið til að bjarga fólkinu sem þar var.

Þetta kom fram í skýrslutöku yfir lögreglumönnum við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Skýrsla hefur verið tekin af báðum sakborningum í málinu og þremur lögreglumönnum, lækni og sjúkraflutningamanni. Karlmaður og kona fórust í brunanum.

Karlmaður sem ákærður er fyrir manndráp og brennu segist hafa munað eftir því að hann hafi verið að kveikja í pizzukassa. Hann segist hins vegar muna lítið eftir atvikum eftir það og þangað til hann var kominn út úr húsinu. Kona sem komst lífs af er ákærð fyrir almannahættubrot.

Í skýrslutökum lýsti konan samskiptum fólksins sem var í húsinu þennan örlagaríka dag. Hún segir að samskiptin hafi einkennst af miklu rugli og í gegnum tíðina hafi verið rifist og jafnvel slegist.

Daginn sem kviknaði í húsinu hafi karlmaðurinn sem grunaður er um morðið sakað konuna sem lést um að hafa stolið af sér. Þau hafi rifist vegna þess. Karlmaðurinn sem ákærður er segist ekki muna eftir þessu. Hann þvertók fyrir það í skýrslutöku í morgun að hafa ætlað að bana fólkinu sem lést.

Í upptökum sem spiluð var úr lögreglubílnum sem karlmaðurinn var færður í eftir að hann kom á vettvang heyrist hann spyrja hvort hann sé orðinn morðingi. Upptakan var spiluð fyrir karlmanninn en hann gat ekki gefið skýringar á því sem kom fram á henni.

Lögreglumaður sem stýrði rannsókninni segir að þegar lögreglumenn komu upphaflega á staðinn hafi verið unnið út frá þeirri tilgátu að framið hefði verið morð og síðan kveikt í húsinu til að hylma yfir þann ásetning. Aðgerðir á vettvangi hafi miðað að því, en einnig að koma í veg fyrir skaða sem gætu hlotist af asbesti sem var í húsinu.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi