Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hertar reglur um afhendingu lyfja taka senn gildi

01.03.2020 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Aðeins verður heimilt að afhenda lyf til þeirra sem hafa lyfjaávísun eða ótvírætt umboð til að sækja lyfin, eftir 10. mars. Þá ganga í gildi breytingar á reglum um afhendingu lyfja í apótekum. Samkvæmt nýju reglunum þarf fólk að framvísa persónuskilríkjum, hvort sem það er að leysa út lyf fyrir sig, eða er með umboð til að sækja fyrir aðra.

Fram kemur á vef Lyfjastofnunar að það hafi gerst að aðrir en eigandi lyfjaávísunar hafi leyst út lyf í apótekum, án heimildar. Það sé því mat stofnunarinnar að óhjákvæmilegt sé að skerpa á túlkun og framkvæmd reglugerðar um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja þar sem segi að þau verði aðeins afhent sjúklingi eða umboðsmanni hans. „Til að ótvírætt sé hver geti talist umboðsmaður í þessu tilliti, verður framvegis kallað eftir skriflegu umboði þess sem sækir lyf í apótek fyrir annan en sjálfan sig. Í öllum tilvikum þarf að framvísa persónuskilríkjum, hvort sem um ræðir eiganda eða umboðsmann,“ segir á vef Lyfjastofnunar. 

Upplýsingar um lyfjanotkun teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga og því gæti verið um brot á þeim að ræða séu lyf afhent þeim sem ekki hefur ótvírætt umboð til þess að fá þau afhent, segir einnig á vef Lyfjastofnunar. Foreldrar geta sótt lyf fyrir börn að 16 ára aldri. Börn, eldri en það, þurfa að veita foreldrum sínum umboð til að sækja lyf fyrir sig. 

Þegar fólk leysir út lyf í apóteki fyrir aðra þarf að framvísa skriflegu umboði. Lyfjastofnun hefur birt eyðublað á vef sínum, sem hægt er að prenta út, fylla út og framvísa sem umboði. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir