
Hert samkomubann mun hafa mikil áhrif á samfélagið
Minnisblaðið var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar nú síðdegis.
Í því tekur Þórólfur fram að spálíkanið sé uppfært nánast daglega og spáin kunni því að breytast í samræmi við það. Spár gera ráð fyrir að toppi faraldursins verði náð fyrri hluta aprílmánaðar.
568 hafa greinst með COVID-19. 95 ný smit hafa verið staðfest miðað við sömu tölur í gær. 546 eru í einangrun þar sem 22 er batnað. Alls eru 6.340 í sóttkví og 12 á sjúkrahúsi.
Í minnisblaði Þórólfs er segir jafnframt að líklega hafi einn látist af völdum COVID-19 sjúkdómsins hér á landi. Það var ferðamaður frá Ástralíu sem lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Eiginkona hans greindist einnig með kórónuveiruna og hefur verið í einangrun síðan.
Þórólfur segir að smit á Íslandi hafi þegar haft áhrif á getu Landspítalans til að veita heilbrigðisþjónustu og sú staða kalli á frekari viðbrögð til að varna því að veiran breiðist hratt út. „Nauðsynlegt er að hægja á faraldrinum enn frekar til að auka líkur á því að heilbrigðiskerfið geti sinnt þeim sem veikjast af COVID19 ásamt því að geta sinnt annarri bráðaþjónustu,“ segir í minnisblaðinu.
Tillagan um hert samkomubann eigi að hægja enn frekar á útbreiðslu COVID-19 í þeim tilgangi að viðhalda starfsgetu heilbrigðiskerfisins. „Ef faraldurinn nær hraðri útbreiðslu eru líkur á að geta sjúkrahúsa til að sinna alvarlega veikum einstaklingum muni ekki verða fullnægjandi.“
Þórólfur segir jafnframt að fyrirmæli um hert samkomubann muni hafa mikil áhrif á samfélagið en líklegt verði að telja að heilsufarsávinningur sem af þeim hljótist réttlæti þau áhrif.