Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hert samkomubann: Ekki fleiri en 20 mega koma saman

22.03.2020 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hert samkomubann á Íslandi, sem tekur gildi á miðnætti annað kvöld, miðast nú við að mest tuttugu mega koma saman. Sundlaugum, söfnum og skemmtistöðum verður lokað, og öll starfsemi sem krefst nándar innan tveggja metra er bönnuð.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þetta í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, til að takmarka útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Takmörkun á skólahaldi verður óbreytt.

Helstu áhrif frekari takmörkunar:

Allar fjöldasamkomur þar sem fleiri en 20 manns koma saman eru óheimilar meðan takmörkunin er í gildi. Á það jafnt við hvort sem fólk kemur saman í opinberum rýmum eða einkarýmum.

Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga.

Á öllum vinnustöðum eða þar sem önnur starfsemi fer fram skal vera tryggt að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar í sama rými. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenningssamkomur og aðra sambærilega starfsemi.

Sérstakar reglur gilda um matvöruverslanir og lyfjabúðir. Þar verður heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu, að því gefnu að hægt sé að halda a.m.k. tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga. 

Takmörkunin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna, né til loftfara og skipa.

Þessu verður lokað vegna sérstakrar smithættu:

Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á þessum takmörkunum stendur.

Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þar undir fellur allt íþróttastarf og einnig allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. 

Þetta á ekki við um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem ekki getur beðið. 

Skólastarf óbreytt en gæta skal að tveggja metra reglu meðal eldri barna

Skólastarf verður áfram háð sömu takmörkunum og tóku gildi síðastliðinn mánudag. Þó skal fylgja fjarlægðarmörkum um tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga eftir því sem það á við og mögulegt er, einkum gagnvart eldri börnum.

Þá er kveðið á um aukin þrif og sótthreinsun almenningsrýma. Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrifið eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti. Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, svo sem við afgreiðslukassa í verslunum.