Herskáir risamaurar á leið í Húsdýragarðinn

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
„Þetta eru stærstu maurar sem finnast í náttúrunni,“ segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en risamaurar frá Brasilíu munu fljótlega þramma um garðinn eftir að Umhverfisstofnun heimilaði innflutninginn.

Maurarnir eru af tegundinni Dinoponera sem fyrirfinnst aðeins í regnskógum Suður-Ameríku en búkur vinnumauranna getur orðið allt að 3-4 sentimetra langur. Húsdýragarðurinn þurfti að fá leyfi hjá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og brasilísk stjórnvöld þurfa einnig að leggja blessun sína yfir þetta. „Þetta kemur úr ræktun í háskóla í Sao Paulo þar sem er verið að rannsaka þessa tegund,“ segir Þorkell í samtali við Morgunútvarpið. Fyrir var Húsdýragarðurinn með svokallaða laufskurðarmaura sem hafa mjög flókið félagskerfi. „Þeir rækta sveppi til þess að fóðra afkvæmi sín, hafa stundað garðyrkju og ræktun frá ómunatíð. Innan þeirra eru margar stéttir, sem eru allt frá tveggja millimetra löngum maurum og upp í rúmlega sentimetra.“

Risamaurarnir eru meira en tvöfalt stærri og með talsvert einfaldara kerfi. „Ekki eins mikil verkaskipting og miklu færri maurar í hverju búi, bara nokkrir tugir, í staðinn fyrir jafnvel milljónir.“ Þorkell segir maurana vera vinsæla hjá börnunum og hafa talsvert fræðslugildi. „Ef það er hægt að skoða hvernig lítil skordýr halda uppi flóknum félagslegum kerfum eins og mannfólkið er það mjög áhugavert.“ Eitthvað af fleiri framandi dýrum er að finna í Húsdýragarðinum, til að mynda eðlur og snákinn Flækju. Almennt er allur innflutningur á dýrum bannaður og þess vegna háður undantekningum. Eitt af því sem skiptir máli í því samhengi er hvort líklegt er að dýrin geti fjölgað sér í íslenskri náttúru. „Þau dýr sem við erum með til sýnis koma öll frá svæðum sem eru eins langt frá því að vera íslensk og hugsast getur, þessir maurar eru hitabeltisdýr og ekki nokkur leið fyrir þá að lifa af í íslenskri náttúru.“

Ekki er alveg víst hvenær risamaurarnir mæta í Húsdýragarðinn því enn á eftir að fá leyfi frá brasilískum stjórnvöldum. „Nýjustu fregnir herma að það sé kominn nýr forseti og það sé allt upp í loft þar í stjórnkerfinu. Þannig er smá óvissa hvenær við fáum endanleg svör þaðan. En ef allt gengur eðlilega ætti þetta að koma innan nokkurra vikna.“ En ætlar Þorkell sjálfur að handleika maurana þegar þeir koma? „Það á eftir að koma í ljós. Þessir maurar eru mjög herskáir og geta stungið og valdið miklum sársauka. Þetta eru maurar skyldir býflugum og vespum. Þannig ég ætla ekki að lofa neinu hvað það varðar.“

Rætt var við Þorkell Heiðarsson í Morgunútvarpinu.

davidrg's picture
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi