Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Herjólfur siglir þrátt fyrir samkomubann

24.03.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Margir Vestmannaeyingar hafa lýst áhyggjum af siglingum Herjólfs undanfarið vegna herts samkomubanns og COVID-19 faraldurs. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við fréttastofu að margir hefðu spurt áhyggjufullir hvort að Herjólfur hætti að sigla vegna samkomubanns. Hún sagði að svo yrði ekki. Herjólfur væri þjóðvegur Eyjamanna og afar mikilvægt að halda siglingum áfram. Herjólfur verður því látinn sigla alla daga.

Páley sagði að stjórnendur útgerðarinnar hefðu gert sitt til að tryggja áframhaldandi siglingar, meðal annars með því að skipta upp vöktum. Þá hafa lykilstarfsmenn á Herjólfi þurft að fara út af heimilum sínum tímabundið svo þeir séu ekki í samskiptum við ættingja sína sem eru í sóttkví.

Í auglýsingu um samkomubann kemur fram að það gildi hvorki um alþjóðaflugvelli og -hafnir né um loftför og skip.

Í gærkvöld var staðfest að ellefu hefðu verið greindir með COVID-19 veikina auk þeirra 30 sem höfðu þegar verið greindir með veikina. Sex af þeim ellefu sem greindust í gær voru í sóttkví. Alls eru nú 487 í sóttkví. 

Páley segir að fólk hafi tekið vel í tilmæli yfirvalda. Það virði fjöldatakmarkanir og samskiptafjarlægð, og rólegt sé yfir bæjarlífinu. Fólk fer í búðina og svo heim, hugsanlega í göngutúr, segir hún. Mikið álag er á viðbragðsaðilum sem fást við faraldurinn. Páley segir að mikið sé að gera í smitrakningum. Hún segir til marks um árangur sem náðst hefur að rúmlega helmingur þeirra sem greindist með smit í gær var þegar kominn í sóttkví.