Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Herjólfur á rafmagn: „Hálfur sigur unninn“

02.02.2020 - 10:14
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Herjólfur hefur siglt á rafmagni til Landeyja undanfarna daga. Þar á hins vegar enn eftir að virkja hleðslustöð til að skipið sigli báðar leiðir alfarið án olíu. „Það er nákvæmlega eins að sigla skipinu en nú fáum við orku frá batteríum í staðinn fyrir vélum,“ segir Sigmar Logi Hinriksson, skipstjóri.

Í síðustu viku var hleðsluturn tilbúinn til notkunar í Vestmannaeyjum. Í Landeyjum er turninn kominn upp en hann er ekki kominn í gagnið. Úr því verður bætt við fyrsta tækifæri að sögn skipstjóranna. „Við komumst legginn frá Vestmannaeyjum að Landeyjahöfn. Það tekur svona um þrjátíu mínútur, rúmar, að hlaða skipið.“

En þið komist ekki til baka til Eyja? „Nei þá þurfum við að nota vélar til að hlaða. Það er hálfur sigur unninn með þessu,“ segir Sigmar Logi.

„Þetta er að nást. Það er mikill sparnaður í olíu en kolefnissporið þeim mun minna sem er jákvætt,“ segir  Ívar Torfason, skipstjóri.

Dýpið í Landeyjum óvenju gott

Það er afar sjaldgæft að Herjólfur sigli yfir háveturinn til Landeyja. Veður hefur verið gott. „Við höfum bara einu sinni verið að sigla á þessum árstíma og í raun og veru náði það ekki svona langt inn í janúar og núna sko. Það eru bara einstakar aðstæður varðandi sandburð þennan veturinn. Dýpið er mjög gott eiginlega getur ekki verið betra, þess vegna getum við siglt,“ segir Ívar jafnframt.

„Tilfærslan á sandi núna síðastliðinn mánuð núna er meiri en við dælum á einu ári og tveimur meirað segja,“ bætir hann við.