Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Herjólfssagan endalausa

02.12.2019 - 10:10
Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir / RÚV
Það hefur sjaldan verið nein lognmolla í samgöngumálum Vestmannaeyinga. Áratugur er frá vígslu hinnar byltingarkenndu Landeyjahafnar sem styttir ferðatímann umtalsvert. Kostnaður við smíði nýs Herjólfs fór meira en milljarð fram úr áætlun. Skipið er ekki enn farið að sigla fyrir rafmagni en ferðir í Landeyjahöfn hafa gengið vel síðan það kom úr slipp í október. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir mikilvægt að hafa dýpkunarskip til taks, en að dýpkunartímabilum í höfninni verði að ljúka.

Áætlanir sem ekki stóðust

Gífurlegum fjárhæðum og tíma hefur verið varið í lagfæringar á Landeyjahafnar síðan hún var tekin í notkun því hún virkaði jú ekki sem skyldi. 2014 var vonast til að hún yrði aðeins ófær um 10 daga á ári. En dagarnir hafa orðið töluvert fleiri. Síðustu fjögur ár hefur Herjólfur ekki siglt frá Landeyjahöfn heldur Þorlákshöfn 165 daga á ári að meðaltali, eða í 45 prósentum tilvika. Tveimur árum eftir vígslu Landeyjahafnar tilkynnti innanríkisráðherra að ný Vestmannaeyjaferja myndi hefja reglubundnar siglingar í síðasta lagi 2015. Það gekk heldur ekki eftir.

Deilur við Pólverja kostnaðarsamar og tímafrekar

Fimm árum síðar, í byrjun 2017, náðust samningar milli Vegagerðarinnar og pólsku skipasmíðastöðvarinnar CRIST, um smíði nýrrar ferju. Það gekk heldur ekki þrautalaust. Pólverjarnir neituðu að afhenda skipið því það hafði kostað meira en áætlað var. Miklu meira. Íslenskir ráðamenn tóku því ekki vel. Upphófust miklar deilur, með kröfugerðum, dagsektum, afturköllun bankaábyrgða og stórum yfirlýsingum á báða bóga. CRIST vildi 1,2 milljarða í viðbót. Ríkisstjórnin bætti 790 milljónum í skipið í síðustu fjáraukalögum. Ferjan endaði á að kosta yfir 5,3 milljarða íslenskra króna, en ekki 4,2 eins og tilkynnt var í byrjun árs.

Seinkaði um ár

Nýr Herjólfur átti upphaflega að leysa hinn gamla af hólmi snemma sumars 2018. En eftir miklar samningaviðræður, þras og nokkur hundruð milljónir til viðbótar til pólsku skipasmíðastöðvarinnar, sigldi nýja skipið jómfrúarferð sína hingað til Vestmannaeyja í sumar, rúmu ári síðar en áætlað var.

Herjólfur komst heim um miðjan júní, en hóf ekki áætlunarsiglingar strax. Samgönguráðuneytið óskaði eftir svörum frá Vegagerðinni 19. júlí vegna tafanna. Margt þurfti að laga, eins og sést á tölvupóstsamskiptum milli forsvarsmanna Herjólfs og Vegagerðarinnar, sem fréttastofa fékk aðgang að.

Tók á taugarnar

Til dæmis rákust bílarnir undir í Landeyjahöfn, starfsfólk í eldhúsi var óánægt og barnahornið var ekki nægilega öruggt. Og þetta var farið að taka á taugarnar. Hlutirnir voru ekki nógu skýrir, tóku langan tíma, fólk var orðið pirrað og ökubrýr ófullnægjandi. En Herjólfur hinn fjórði hóf loks áætlunarsiglingar 25. júlí, við mikinn fögnuð.

Áhyggjurnar héldu þó áfram með haustinu, til dæmis varðandi lýsingu í Landeyjahöfn. Hugmyndir voru um að fella niður kvöldferðir því skipstjórar sáu ekki nægilega vel. 20. ágúst var lýsing enn ófullnægjandi og gat skapað ófremdarástand. Tunnan við innri hafnargarðinn var of lág og gat skapað stórhættu, hornið í Landeyjahöfn var óvarið, sem og viðlegukanturinn í Eyjum. Herjólfur fór í yfirhalningu í Slippnum á Akureyri í lok september. Allt kapp var lagt á að bæta aðstæður í höfnunum.

„Þetta er samt óvenjulítið, miðað við búnaðinn á skipinu og hvernig það er útfært. Þetta er náttúrulega tölvuver, öllu stýrt í gegnum tölvur. Þannig að maður átti von á meiri bilunum,” segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs.

Dýr rafvæðing sem er enn ekki komin í gagnið

Í byrjun árs setti ríkisstjórnin 830 milljónir aukalega í byggingu Herjólfs til að rafvæða skipið. Í ágúst lýsti Vegagerðin því yfir að rafhleðsluturnarnir í höfnunum yrðu komnir í gagnið í lok október eða byrjun nóvember.

„Við eigum eftir að fá rafmagn inn á þennan, landtengingu, og bindum miklar vonir við að við náum því fljótlega. En tíminn verður að leiða í ljós hvernig það fer,” segir Guðbjartur.

Síðasta þriðjudag var haldinn starfsmannafundur í Herjólfi þar sem farið var yfir stöðuna og ljóst er að bæði lagfæringarnar og veðrið hafa gert starf áhafnarinnar auðveldara.

Náttúran með Eyjamönnum í liði

Veðrið í Landeyjahöfn hefur verið óvenjuhagstætt það sem af er vetri. Og það gerðist á þriðjudag, í fyrsta sinn í langan tíma, að dýpkunarskipið Dísa varð í raun óþarft og sent í burtu, því það þurfti ekki að dýpka höfnina meira í bili.

„Núna hefur náttúran verið með okkur í liði, höfnin er í góðu standi. En það skiptir máli að eyða út þessum dýpkunartímabilum sem hafa verið og nú verður dýpkunarskip til taks að minnsta kosti út janúar,” segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Sem tryggir að það eru alltaf miklu meiri líkur á að við getum notað höfnina eins og lagt var af stað með í upphafi.”

36 milljónir tryggðar í Þorlákshöfn

Í ljósi sögunnar gerði Vegagerðin samning við Þorlákshöfn í október sem tryggir höfninni að minnsta kosti 36 milljónir á ári til að taka á móti skipinu ef ófært er í Landeyjahöfn, í 140 daga. Þorlákshöfn fær svo greitt aukalega fyrir hverja viðlegu umfram það. Samningurinn gildir til 2024, sem tryggir Þorlákshöfn að minnsta kosti 180 milljónir, auk virðisaukaskatts, þó að Herjólfur sigli aldrei þangað.

„Við treystum á að Landeyjahöfn verði okkur gjöful þennan veturinn,” segir Guðbjartur.

Síðustu tvo mánuði hefur Herjólfur einungis siglt fimm daga í Þorlákshöfn.

„Staðan í Landeyjahöfn, nýja skipið, veðrið... allir þessir þættir spila saman. Nú siglum við bara á okkar áætlun í Landeyjahöfn og allir eru glaðir,”
- Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum