Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Herinn varar fólk við að ráðast inn á Svæði 51

18.07.2019 - 03:07
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia Commons
Bandaríski flugherinn varar fólk við að ráðast inn á Svæði 51 í eyðimörkinni í Nevada en meira en ein og hálf milljón hefur boðað komu sína þangað 20. september. Þar hefur það í hyggju að yfirbuga hermenn sem vakta svæðið og komast að meintum leyndarmálum þess.

Svæði 51 hefur lengi verið samsæriskenningasmiðum hugðarefni og telja margir þeirra að þar geymi Bandaríkjaher geimverur og fljúgandi furðuhluti. Vilja skipuleggjendur viðburðarins á Facebook komast til botns í því hvort að það sé rétt. Auk þeirra sem skráð hafa sig til þátttöku hefur rúmlega ein milljón til viðbótar sýnt viðburðinum áhuga. Ekki er þó hægt að fullyrða hversu margir hafa raunverulega í hyggju að taka þátt þegar á hólminn verður komið og telja margir að einungis sé um grín að ræða.

Hættulegt að reyna að komast inn á herstöð

Bandaríski flugherinn hefur fengið veður af málinu og segir Svæði 51 einungis nýtt til prófana á herflugvélum og þjálfunar flugmanna. Talsmaður flughersins vill ekki greina frá því hvort að sérstakar ráðstafanir verði gerðar vegna viðburðarins en segir að mikil hætta felist í að reyna að komast inn á herstöðvar í óleyfi.

Svæði 51 er gríðarstórt, rúmlega 1,1 milljón hektara að stærð, og almenningi er bannað að fljúga yfir það. Auk flughersins notar bandaríska orkumálaráðuneytið svæðið fyrir ýmiskonar tilraunir.

Í nágrenni svæðisins má finna mörg söfn sem gera út á meinta tilvist geimvera á Svæði 51 og eru vinsæl meðal ferðamanna með áhuga á verum úr óravíddum geimsins.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV