Herbergi stúlkunnar fylltist af snjó - slapp án meiðsla

15.01.2020 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd: Bernhard Guðmundsson - RÚV
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri á tólfta tímanum í gærvkvöld. Stúlku á fermingaraldri var bjargað úr öðru flóðinu eftir að hafa verið föst undir því í rúman hálftíma. Björgunarsveitarmenn grófu stúlkuna úr flóðinu, sem slapp án teljandi meiðsla, og er nú á leið með varðskipinu Þór til Ísafjarðar. Annað flóðið sökkti nánast öllum flota Flateyrar og ljóst að tjónið er mikið. Til stendur að opna fjöldarhjálparmiðstöð á Flateyri þegar Þór snýr aftur þar sem áfallahjálp verður veitt.

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra segir í stöðuskýrslu í morgun ljóst að þörf sé á sálrænum stuðningi eftir atburði næturinnar. 

Mikill viðbúnaður var eftir að tilkynning barst um þrjú snjóflóð, tvö á Flateyri og eitt í Súgandafirði. Þyrla landhelgisgæslunnar var í viðbragðsstöðu og Varðskipið Þór flutti tugi björgunarsveitarmanna sjóleiðina til Flateyrar frá Ísafirði. 

Björgunarsveitarmenn í Sæbjörgu á Flateyri komu fyrstir að flóðinu. Móðir stúlkunnar ásamt tveimur ungum börnum komust út úr húsinu af sjálfsdáðum með því að klifra út um glugga en herbergi stúlkunnar fylltist af snjó. 

Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar, sagði við fréttastofu í nótt að það hafi verið snjóflóðastöng sem hafi fundið rúm stúlkunnar og komið þeim á sporið um hvar hún gæti verið. Hún slapp án teljandi meiðsla. Hann segir mikla milda að tekist hafi að bjarga henni, aðstæður hafi verið mjög erfiðar, efst í snjóflóðinu hafi verið púðursnjór sem síðan hafi breyst í hálfgerða steypu þegar neðar var komið. 

Flóðin tvö sem féllu á Flateyri voru mjög stór. Annað flóðið sem varnargarður beindi til sjávar steyptist niður í höfnina þannig að nánast allur floti bæjarins sökk, alls sex bátar af sjö sem voru við bryggju og ljóst að tjónið er mikið og  

Krafturin í snjóflóðunum var mikill og það heyrðust drunur um allan bæinn, að sögn Steinunnar Guðnýar Einarsdóttur, íbúa á Flateyri.  Steinunn fékk símtal frá móður sinni um klukkan ellefu í kvöld um að brunaboðinn í bátnum þeirra væri farinn í gang. Maðurinn hennar Steinunnar var á leið út til að athuga hvað væri að „þegar hann kemur hlaupandi niður og segist hafa heyrt svaka drunur og snjófjúk koma á eftir.“ Hann rauk í gallann og út. Steinunn hringdi þá þegar í neyðarlínuna og var svo í sambandi við móður sína til þess að fá frekari fréttir. „Við fáum svo fréttir af því að þetta sé búið að þurrka út höfnina og báturinn okkar og aðrir bátar séu bara horfnir.“

Maðurinn hennar Steinunnar var enn í útkalli ásamt öðrum björgunarsveitarmönnum á Flateyri þegar Steinunn finnur eins og svaka hvellur skelli á húsinu. Þau búa í Ólafstúni, sem er efst í bænum og rétt við snjóflóðavarnargarðana. „Ég hringi náttúrulega í móðursýkiskasti í manninn minn og þeir fara þá strax af stað. Þeir voru þá niður frá þar sem hitt flóðið var,“ sagði Steinunn.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV