Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Herbergi innsigluð á Hótel Adam

11.02.2016 - 12:38
Mynd með færslu
Hótel Adam er við Skólavörðustíg í Reykjavík.  Mynd: ja.is - skjáskot
Lögreglan innsiglaði í morgun átta herbergi á Hótel Adam við Skólavörðustíg í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verða þrjú herbergi til viðbótar innsigluð þegar hótelgestir í þeim hafa lokið dvöl sinni.

Ástæðan fyrir lokuninni er að hótelið hefur aðeins leyfi fyrir níu herbergjum, en hefur leigt út 20 herbergi.

Lögreglan réðst í aðgerðirnar eftir athugun heilbrigðiseftirlitsins og sýslumanns. Hótelið rataði í fréttir á dögunum eftir að gestum var ráðið frá því að drekka kranavatn, og mælt með því að þeir keyptu í staðinn vatn á flöskum sem hótelið seldi.

Elvarnaeftirlitið fór líka á hótelið og gerði athugasemdir. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var sófi fyrir einum neyðarútgangi. Hann var færður. Þá var árlegri yfirferð á brunaviðvörunarkerfi ekki lokið. Ekkert benti þó til þess að kerfið væri í ólagi, segir slökkviliðið.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV