Héraðssaksóknari auglýsir eftir sex rannsakendum

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Héraðssaksóknari hefur auglýst eftir sex rannsakendum sem embættið hyggst ráða á næstu mánuðum. Ráðið verður í fyrstu þrjár stöðurnar frá og með 1. apríl og í hinar þrjár eigi síðar en frá og með 1. september. Frestur til að sækja um stöðurnar rennur út 12. febrúar. Umsækjendur skulu hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða BS/BA háskólagráðu í hagfræði, viðskiptafræði eða öðru sambærilegu háskólanámi.

Auglýsingin birtist í Lögbirtingablaðinu í morgun.

Fréttastofa greindi frá því í nóvember síðastliðnum að Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, hefði lagt til í minnisblaði til dómsmálaráðuneytisins að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættisins yrði fjölgað um sex í byrjun þessa árs. Þetta væri lágmarksfjölgun.  

Tilefni minnisblaðsins var umræðan um mál Samherja og áhrif þess á verkefnisstöðu embættisins.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 19. nóvember að huga „sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.“  

Tveimur dögum eftir þann fund sendi Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, minnisblað til dómsmálaráðuneytisins. Nokkrum dögum seinna var minnisblaðið komið til fjármálaráðherra.  

Samherjamálið var ekki nefnt sérstaklega í minnisblaðinu en Ólafur Þór taldi að núverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hefði á hendi. 

Áætlaður meðalkostnaður fyrir hvert starf væri um 15 milljónir og heildarkostnaðurinn því um 90 milljónir.   Mörg stór og þung efnahagsbrotamál væru til rannsóknar eða biðu eftir því að komast í rannsókn. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi