Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hér er fólk búið að gera kraftaverk í störfum sínum“

13.12.2019 - 19:51
Mynd: Rúv / Rúv
„Staðan er auðvitað sú að það mun taka nokkra daga að koma öllu í samt lag en þetta er auðvitað þannig að það er allt annað að sjá ástandið með eigin augum heldur en að heyra skýrslur á fundum,“ segir forsætisráðherra. Hún fór ásamt fjórum öðrum ráðherrum norður í land í dag og kynnti sér aðstæður á þeim svæðum sem verst urðu úti í óveðrinu.

„Við sjáum auðvitað að hér er fólk búið að gera kraftaverk í störfum sínum, og sem betur fer eru hlutirnir að ganga og við sjáum að það er að koma rafmagn á og hiti á flesta staði og mjög gott fyrir okkur að upplifa og sjá með eigin augum og finna kraftinn hjá fólkinu sem er auðvitað búið að standa sig frábærlega síðustu daga,“ segir Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra. 

Fóru um borð í varðskipið Þór

Á Dalvík tók Katrín Sigurjónsdóttir bæjarstjóri auk fulltrúa úr atvinnulífinu á móti ráðherrunum. Þá fóru þau um borð í varðskipið Þór sem framleiðir nú rafmagn fyrir Dalvík og kynntu sér einnig skemmdir sem urðu á flutningskerfi rafmagns. 

„Maður áttar sig líka á því hve miklu það hefur skipt fyrir Dalvíkinga að fá varðskipið hér og auðvitað mikil fyrirhyggja sem fólst í því að hafa slíkan búnað,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Varðskipið hefur séð bænum fyrir rafmagni frá því á miðnætti í gær, segir Einar Hansen skipaeftirlitsmaður hjá Landhelgisgæslunni. Aldrei hefur þurft að nota búnaðinn áður. Einar segir að skipið verði við bryggjuna og sjái bænum fyrir rafmagni eins lengi og þörf krefur eða þar til rafmagni hefur verið komið aftur á.

„Mikilvægt að sjá þetta allt með eigin augum.“

Ákvörðun um að fljúga norður var tekin á ríkisstjórnarfundi í morgun og flugu Katrín og Sigurður Ingi ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til Akureyrar um hádegisbil. Þau heimsækja Dalvík, Fjallabyggð, Sauðárkrók, Blönduós og Hvammstanga. 

Þá var ákveðið að setja á fót átakshóp vegna fárviðrisins. Hópurinn vinnur meðal annars að tillögum á úrbótum á innviðum í raforku og fjarskiptum. Öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi. Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum sínum í byrjun mars.

Katrín segir ferðina vera mikilvægt innlegg. „Ég er hér á ferð með formanni átakshóps stjórnvalda sem ætlar að fara yfir hvað aðgerðum við þurfum að forgangsraða til þess að tryggja betur okkar innviði þannig að það er mikilvægt að sjá þetta allt með eigin augum.“