Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heltekinn af hrifningu yfir John Travolta

Mynd: RÚV / RÚV

Heltekinn af hrifningu yfir John Travolta

18.10.2019 - 15:12

Höfundar

„Það sem er merkilegt við myndina er fyrst og fremst John Travolta. Hann verður stórstjarna í þessari mynd með sinni ótrúlegu fegurð, hæfileikum og persónutöfrum,“ segir Jóhann G. Jóhannsson leikari sem fékk sjálfur að leika Tony nokkrum árum eftir að Travolta gerði hann ódauðlegan.

Þegar leikarinn Jóhann G. Jóhannsson sá dansmyndina Saturday night fever í leikstjórn John Badham í fyrsta skipti fannst honum myndin ömurleg. Hann var dreginn í bíó af eldri systur sinni sem var að passa hann þennan dag og var lofað því að myndin væri alveg eins og Grease. Honum fannst hann illa svikinn þegar hann gekk út úr bíóinu. Hann tók myndina þó í sátt nokkrum árum síðar. „Það var þegar ég lék sjálfur Tony Manero fyrstur Íslendinga á árshátíðarsýningu Fjölbrautaskólans í Breiðholti árið 1991,“ segir Jóhann. Þegar hann fékk þær fregnir að hann hefði hreppt hlutverkið fór hann beint heim og smellti VHS spólunni í tækið. Hann varð ekki fyrir vonbrigðum í það skipti. „Ég varð heltekinn af hrifningu.“

„Hann er einfaldlega með þetta“

Það fer ekki á milli mála hvað stendur upp úr fyrir Jóhanni þegar hann sér myndina í annað sinn. „Það sem er merkilegt við myndina er fyrst og fremst John Travolta. Hann verður stórstjarna í þessari mynd með sinni ótrúlegu fegurð, hæfileikum og persónutöfrum.“

Það kemur því ekki að sök að aðrir leikarar séu ekki sérlega merkilegir því það geislar af hinum þokkafulla Travolta sem dansar eins og hann hafi aldrei gert annað. „Hann fékk Óskarstilnefningu fyrir þetta hlutverk enda ótrúlega flottur leikari og sjúkur dansari. Ekki endilega tæknilega heldur er hann einfaldlega með þetta.“

Geggjað upphafsatriði

Hann segir merkilegt við myndina hvernig hún fangar andrúmsloftið í New York á áttunda áratugnum. „Það hefur jafnvel verið talað um hana sem heimildamynd um klúbbamenningu þess tíma,“ fullyrðir hann og hvetur áhorfendur til að fylgjast sérstaklega með upphafsatriðinu. „Það er geggjað þegar hann labbar í takt við BeeGees lagið. Tónlistin er sjúk og atriðið frábært.“

Þegar Jóhann horfði aftur á myndina hjó hann einnig eftir einu sem gladdi hann sérstaklega. „Tony er með mynd af Rocky upp á vegg hjá sér og svo eftir þessa mynd kemur framhaldsmynd sem heitir Staying alive. Og hver leikstýrir henni?“ Spyr hann leyndardómsfullur. „Sylvester Stallone.“

Kvikmyndin Saturday night fever verður sýnd á RÚV á laugardagskvöld. Hún er hluti af sýningaröð dansmynda á RÚV sem nefnist Dansást. Þar eru sýndar danskvikmyndir sem eru í sérstöku eftirlæti hjá þjóðinni. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ánægjulegt að kynhneigð Billy er ekki augljós

Bókmenntir

Bíóást: Bill Murray stelur senunni

Kvikmyndir

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér