Arnar er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og gekk þar bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Hann byrjaði snemma að skrifa og semja músík en áhuginn á rappi kviknaði um leið og hann heyrði rapptónlist í fyrsta skipti.
Svo kynntist hann Helga Sæmundi, strák sem var með honum í skóla en einu ári eldri en hann. Helgi hafði fengið ágætis athygli í íslensku rappsenunni og frétti að Arnar væri að rappa sjálfur. Svo varð úr að þeir fóru að hanga saman og gera tónlist. Síðan þá hafa þeir verið nánast óaðskiljanlegir.