Hélt að hann þyrfti að vaxa upp úr rappi

Mynd:  / 

Hélt að hann þyrfti að vaxa upp úr rappi

30.07.2018 - 16:34
Arnar Freyr Frostason eða Arnar Úlfur eins og hann er líklega betur þekktur hefur haft nóg fyrir stafni undanfarið en nú í ágúst er von á nýrri sólóplötu frá honum.

Arnar er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og gekk þar bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Hann byrjaði snemma að skrifa og semja músík en áhuginn á rappi kviknaði um leið og hann heyrði rapptónlist í fyrsta skipti. 

Svo kynntist hann Helga Sæmundi, strák sem var með honum í skóla en einu ári eldri en hann. Helgi hafði fengið ágætis athygli í íslensku rappsenunni og frétti að Arnar væri að rappa sjálfur. Svo varð úr að þeir fóru að hanga saman og gera tónlist. Síðan þá hafa þeir verið nánast óaðskiljanlegir.

Mynd með færslu
 Mynd: Úlfur Úlfur
Arnar og Helgi Sæmundur mynda saman hljómsveitina Úlf Úlf.

Fann í hjartanu að hann var listamaður

Arnar segist sjálfur hafa verið ágætis námsmaður en var aldrei alveg viss um hvað hann vildi nákvæmlega læra. Hann á til að mynda aðeins þrjár einingar eftir til þess að klára iðnnám og byrjaði í ritlist, bókmenntafræði og kennaranámi í Háskóla Íslands áður en hann kláraði viðskiptafræði.

Skólanum fylgdi það að flytja suður til Reykjavíkur en það var ekki bara námið sem að dró hann þangað. „Ég var farinn að semja tónlist og fann í hjartanu að ég var listamaður,“ segir Arnar. „Manni langar að hanga með fólki sem að hugsar eins og maður sjálfur,“ bætir hann við.

Þrátt fyrir þetta var hann samt sem áður ekki sannfærður um að rappið gæti nokkurn tímann orðið eitthvað sem að tekið yrði alvarlega eða væri framtíðarstarf.

„Við vorum sena sem var ekki tekin alvarlega og ég trúði því raunverulega að ég þyrfti að vaxa upp úr þessu.“

Rappið fór hins vegar stigvaxandi og varð bara vinsælla og vinsælla. „Núna þykir ekkert skrítið að ég sé þrítugur rappari,“ bætir Arnar við.

Fóru í fýlu út í Ég er farinn

Árið 2009 stofnuðu Arnar og Helgi hljómsveitina Bróður Svartúlfs ásamt þremur öðrum strákum. Fimm mánuðum síðar unnu þeir Músíktilraunir og gáfu út plötu. Hljómsveitin spilaði eins konar númetal, blöndu af rappi og rokki.

Þrátt fyrir velgengni voru Arnar og Helgi farnir að hallast að því að gera rapp. Bróðir Svartúlfs ákvað því að hætta og Arnar og Helgi stofnuðu saman Úlf Úlf. Þeir fóru strax að gefa út lög og fljótlega fór boltinn að rúlla. 

Árið 2011 gáfu þeir út plötuna Föstudagurinn langi þar sem finna má lagið Ég er farinn. Lagið varð gífurlega vinsælt og meðal annars valið lag ársins á Hlustendaverðlaununum það árið. Það var þó ekki endilega frábært fyrir hljómsveitina.

„Lagið varð miklu stærra en hljómsveitin. Við vorum á tímabili hljómsveitin Ég er farinn. Við enduðum á því að fara í fýlu út í þetta lag og hætta að spila það.“

Eru sálufélagar

Úlfur Úlfur gaf út plötuna Hefnið okkar í fyrra en nú hefur Arnar snúið sér að sólóverkefni og hyggst gefa út plötu í ágúst. Þegar Helgi fékk tækifæri til þess að semja tónlistina fyrir sjónvarpsþættina um Stellu Blómkvist vantaði Arnar eitthvað að gera.

„Ég hugsaði um að fara að skrifa bækur en mér finnst bara svo skemmtilegt að gera tónlist.“

Allt í einu var hann svo farinn að eyða bæði miklum tíma og pening í eitthvað sem að átti bara að vera frekar hrátt verkefni. Það lá því beinast við að gefa bara út plötu.

Hljómsveitin Úlfur Úlfur er þó engan veginn hætt, drengirnir halda áfram að spila úti um allt og eru meira að segja með nokkur lög tilbúin. Og þrátt fyrir að hafa unnið saman lengi eru strákarnir ekki komnir með nóg af hvor öðrum. „Helgi verður mögulega stundum þreyttur á mér en ég verð aldrei þreyttur á honum. Við erum sálufélagar.“

Arnar Úlfur var mánudagsgestur Núllsins þessa vikuna. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.